Gloppótt löggjöf um brottkast? 24. október 2022

Gloppótt löggjöf um brottkast?

Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, hefur bent á að lykilákvæði um umgengni við nytjastofna sjávar séu ekki nægilega skýrt orðað í lögum nr. 57/1996, löggjöfinni sem skyldar íslensk fiskveiðiskip til að landa og vigta allan afla í íslenskum höfnum. Mætti þetta ákvæði vera mun betur útfært en nú er, að mati Bjarni.

Umrædd lög hafa það verðuga markmið að bæta umgengni um nytjastofna sjávar og stuðla að því að þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Í samræmi við þetta markmið er III. kafli laganna helgaður vigtun sjávarafla. Upphafsákvæði kaflans, 1. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1996, hljóðar svo: „Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.“

Í útskýringum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu er þó ekki að finna skýringar á hvers vegna einungis er vísað til efnahagslögsögunnar en ekki annarra lögsögubelta sem eru fyrir innan hana, þ.e. innsævis og landhelgi (sjá kort til glöggvunar).

Eins og Bjarni rekur í aðsendri grein á Vísi (23. okt. sl.) er um óþarfa gloppu að ræða í löggjöfinni sem verjendur gætu gert sér mat úr og er því brýnt að löggjafinn stígi hér inn og breyta umræddu lagaákvæði um löndun og vigtun afla þannig að það taki til allra íslenskra hafsvæða.

Í því sambandi mætti mætti skipta út hugtakinu efnahagslögsögu fyrir fiskveiðilandhelgi, eins og hún er skilgreind í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Hugtakið fiskveiðilandhelgi taki ekki einungis til efnahagslögsögunnar heldur alls hafsvæðis frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögunnar.  

Sjá grein Bjarna Más Magnússonar á Vísi

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta