Glæsilegur hátíðarkvöldverður grunnnema 21. mars 2022

Glæsilegur hátíðarkvöldverður grunnnema

Hátíðarkvöldverður grunnnema fór fram með pompi og prakt sl. föstudagskvöld. Stjarna kvöldsins og heiðursgestur var forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson.

Hátíðarkvöldverðurinn hófst með fordrykk í Kringlunni og er óhætt að segja að einstök hönnun rýmisins hafi myndað afar viðeigandi umgjörð um þá fallegu vorbirtu sem umvafði hátíðargestina í upphafi kvöldsins, er Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, bauð gesti velkomna. 

Hápunktur kvöldsins var ávarp forseta sem nefndist Bifröst, ættjarðarást og þjóðernishyggja. Var afar góður rómur gerður að ávarpinu og spunnust skemmtilegar umræður að því loknu þegar forseti sagðist fúslega taka við fyrirspurnum hátíðargesta.

Egill Örn Rafnsson, formaður nemendafélagsins, hélt ræðu fyrir hönd nemenda og Njörður Sigurjónsson, forseti félagsvísindadeildar og prófessor, leiddi skólasögn Bifrastar, Traustur vinur, en hljómsveitin Upplyfting, sem gerði lagið vinsælt á 9. áratugnum, á rætur sínar að rekja til Bifrastar. Veislustjóri kvöldsins var Sigríður Arnardóttir, fjölmiðlakona og kennari við Bifröst.

Sjálfur kvöldverðurinn fór fram í rúmgóðum veitingasal Hótelsins á Bifröst, en hátíðargestir voru nærri 100 talsins.

Þess má svo geta að hátíðarkvöldverður meistaranema fer fram föstudaginn 25. mars nk. Heiðursgestur verður Magnús Scheving.

Skoða má myndir af hátíðarkvöldverðinum á FB-síðu háskólans (ljósm. James Einar Becker).

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta