Glæsileg Háskólahátíð þar sem 81 nemandi brautskráðist 22. júní 2019

Glæsileg Háskólahátíð þar sem 81 nemandi brautskráðist

Brautskráning frá Háskólanum á Bifröst

Laugardaginn 22. júní útskrifaði Vilhjálmur Egilsson rektor 81 nemanda við hátíðlega athöfn. Nemendahópurinn samanstóð af nemendum úr viðskiptadeild, félagsvísinda- og lagadeild og Háskólagátt.

Nýungagjarn skóli í sókn á alþjóðamarkaði

Í hátíðarræðu sinni kom rektor inn á breyttar aðstæður á vinnumarkaði og hækkandi menntunarstig þjóðarinnar. „Háskólarnir hafa ekki lokið hlutverki sínu þótt fólk hafi þegar lokið háskólaprófi.  Margir vilja eða þurfa að koma aftur í háskóla til að læra eitthvað nýtt eða til að dýpka þekkingu sína og fólk getur byrjað háskólanám á öllum aldri. Háskólinn á Bifröst er nemendadrifinn skóli.  Hann er persónulegur skóli.  Við lítum á nemendur okkar sem einstaklinga en ekki sem kennitölur.  Skólinn er sífellt að breytast.  Við bjóðum á hverju ári upp á nýjungar.  Sumar falla í kramið en aðrar ekki.  En svo margar þeirra hafa hitt í mark að síðastliðið haust voru 80% nemenda í áherslulínum í náminu eða námsfyrirkomulagi sem ekki var boðið uppá fyrir fimm árum.“

Þá kom rektor einnig inn á aukna alþjóðavæðingu í skólanum. Það er skýr stefnumörkun innan skólans að auka alþjóðlega starfsemi en öllum er líka ljóst að það er mikið þolinmæðisverk og tekur mörg á að byggja slíkt upp.“ Mikill fjöldi verkefna sem tengjast alþjóðavæðingu eru framundan hjá skólanum Um 30 erlendir skiptinemar koma í skólann á hverri önn frá samstarfsháskólum, sumarskóli fyrir erlenda nemendur er að festast í sessi og nú er í gangi sérstakt námskeið fyrir FOM háskólann í Þýskalandi með 20 nemendum.  Þá koma rússneskir nemendur í heimsókn í skólann næsta haust og er verið að þróa sérstakt nám fyrir erlenda nemendur á ensku sem getur verið ýmist ein önn eða diplomanám í tvær annir.

Verðlaun og útskriftarræður

Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlutu, Donna Kristjana Peters viðskiptadeild og Hekla Jósepsdóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun, þær Alma Rún Ólafsdóttir viðskiptadeild og Guðlaug María Lewis, félagsvísinda- og lagadeild. Útskriftarverðlaun í Háskólagátt hlaut Ólöf Sif Ólafsdóttir. Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn vegna framúrskarandi námsárangurs, þau Bjarni Heiðar Halldórsson, viðskiptadeild og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir félagsvísinda- og lagadeild.  

Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Sigurður Már Sigurðsson og fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar var Linda Pétursdóttir. Fyrir hönd meistaranema í viðskiptadeild flutti Jóna Guðrún Kristinsdóttir ávarp og Magnea Einarsdóttir fyrir hönd meistaranema í félagsvísinda- og lagadeild, þá flutti Thelma Rós Kristinsdóttir ræðu fyrir hönd háskólagáttarnema. 

Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðar Guðmundssonar sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Birgis Þórissonar. Að athöfn lokinni þáðu gestir léttar veitingar.