Glæsileg Háskólahátíð þar sem 69 nemendur brautskráðust 22. febrúar 2020

Glæsileg Háskólahátíð þar sem 69 nemendur brautskráðust

Brautskráning frá Háskólanum á Bifröst

Laugardaginn 22. febrúar útskrifaði Vilhjálmur Egilsson rektor 69 nemendur við hátíðlega athöfn. Nemendahópurinn samanstóð af grunn- og meistaranemum úr viðskiptadeild og félagsvísinda- og lagadeild. Þetta var í fyrsta skipti sem nemendur í diplómanámi í viðskiptafræði og verslunarstjórnun eru útskrifaðir frá skólanum, og flutti Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR stutta tölu að því tilefni. En námið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og VR.

„Menntun er lífsstíll“

Í hátíðarræðu sinni kom Vilhjálmur Egilsson, rektor, inn á breyttar aðstæður í íslensku háskólasamfélagi.  „Ég vil lýsa þessum breytingum í háskólamenntun með því að segja:  „Menntun er lífsstíll“. Mun fleiri stunda nám í íslenskum háskólum en áður var.  Á árinu 1997 voru 3% landsmanna skráð í íslenska háskóla en 20 árum síðar var þetta hlutfall orðið 5,3% og nemendum 29 ára og eldri hafði fjölgað um 230%.  Nú hafa 44% Íslendinga á aldrinum 25-64 ára hafa lokið háskólanámi. Íslenskt samfélag hefur að þessu leyti gjörbreyst á örfáum áratugum og Háskólinn á Bifröst hefur líka breyst.” 

Þá kom rektor einnig inn á að mikilvægt að skólar komi til móts við þarfir ört stækkandi og fjölbreytts hóps nemenda í íslenskum háskólum. “Það getur heldur ekki verið kappsmál að allir fari í gegnum nám á sama hraða.  Bæði hentar sami námshraði ekki öllum út frá því hvernig fólk lærir best eða nýtir best tíma sinn í skóla. Og eins er það ekkert síðra fyrir samfélagið að fólk sé í vinnu og skóla á sama tíma.  Þarf fólk ekki alltaf að vera eitthvað að læra í og með vinnunni hvort eð er þótt það sé ekki í skóla?  En með því að fólk sé á vinnumarkaði og að greiða skatta á sama tíma og það lærir í skóla má ætla að það sé að skila meira til samfélagsins en þeir sem ekki vinna með skóla.“ Sagði Vilhjálmur.

Verðlaun og útskriftarræður

Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlutu, Helena Rós Tryggvadóttir, viðskiptadeild og Fanney Valsdóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun, þau Ásgrímur Már Friðriksson og Hafdís Bjarnadóttir viðskiptadeild og Inga María Ottósdóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn vegna framúrskarandi námsárangurs, þau Bjarni Heiðar Halldórsson, viðskiptadeild og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir félagsvísinda- og lagadeild.  

Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Viktor Örn Guðmundson og fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar, Bergþór Bjarnason. Fyrir hönd meistaranema flutti Inga María Ottósdóttir ávarp.

Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðar Guðmundssonar sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Birgis Þórissonar. Að athöfn lokinni þáðu gestir léttar veitingar.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta