F.v. Bjarni Már Magnússon, Hanna Kristín Skaftadóttir, Magnús Skjöld og Atli Þór Fanndal.

F.v. Bjarni Már Magnússon, Hanna Kristín Skaftadóttir, Magnús Skjöld og Atli Þór Fanndal.

25. nóvember 2022

Geimiðnaðurinn á framtíðina fyrir sér

Háskólinn á Bifröst og Space Iceland hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði geimmálefna. Samstarf aðilanna gengur undir nafninu „Geim Bifröst“ (e. Space Bifröst) og beinist að því að efla rannsóknir og kennslu við Háskólann á Bifröst í geimtengdum málefnum. 

Samstarfsaðilarnir munu vinna saman að þróun rannsóknarverkefna og námskeiða á sviði félagsvísinda, viðskipta- og lögfræði sem og að sameiginlegum viðburðum. Að hálfu Háskólans á Bifröst taka þátt í samstarfinu dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild, Hanna Kristín Skaftadóttir, aðjunkt við viðskiptadeild og dr. Magnús Árni Skjöld Magnússon, dósent við félagsvísindadeild. Atli Þór Fanndal, forstöðumaður Space Iceland Solutions kemur að verkefninu fyrir hönd Space Iceland.

Vægi geimtengdra málefna fer stöðugt vaxandi. Margt í daglegri tilveru fólks styðst nú þegar við geimtækni, s.s. veðurspár, fjarskipti og samgöngur svo að örfá dæmi séu nefnd. Þá tengist geimurinn ekki síður mikilvægum málaflokkum á borð við öryggis- og varnarmál og orkunýtingu.

„Sú aukna áhersla sem Háskólinn á Bifröst hefur lagt á tæknitengda nýsköpun og frumkvöðlaþjálfun fellur afar vel að þeirri öru þróun sem er að eiga sér stað á sviði geimmálefna. Með þessu samstarfi er Háskólinn á Bifröst að stíga stórt skref inn í framtíðina,“ segir dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

Ríkur þáttur í samstarfinu verður að greina hvernig greiða megi enn frekar fyrir og flýta uppbyggingu innan íslenska geimiðnaðarins. Liður í þeirri viðleitni er að taka gildandi regluverk til skoðunar og athuga hvað megi betur fara í þeim efnum. Þá verður einnig lögð áhersla á að greina hvort áskoranir kunni að leynast innan stjórnsýslunnar eða þess rekstrarumhverfis sem fyrirtæki búa við hér á landi. Sú vinna er að mörgu leyti forsenda stefnumótunar og um leið frekari viðskiptatækifæra innlendra aðila á þessu sviði.

„Stundum spyr fólk hvað Ísland hafi að gera með geiminn. Svarið við því er að Ísland er löngu orðið þátttakandi í geimnum. Við viljum þátttöku á forsendum samfélagsins en ekki bara svar við þörfum annarra. Háskólinn á Bifröst er ómetanlegur samstarfsaðili þegar kemur að stefnumótun, viðskiptaþróun og þróun lagaramma“ segir Atli Þór Fanndal hjá Space Iceland. „Ísland á reyndar nokkuð glæsilega, en oft gleymda, sögu um þátttöku í geimvísindum; kastbrautarskot á vegum Geimvísindastofnunar Frakklands, CNES, árið 1964 og 1965, jarðfræðiþjálfun tunglfara NASA 1965 og 1967 og geimfarann Bjarna Tryggvason hjá Geimvísindastofnun Kanada, ASC/CSA auk óteljandi fjölda rannsókna og tilrauna í gegnum árin. Space Iceland hefur frá því að verkefnið varð til í kaffibollaspjalli árið 2018 dregið til landsins tilraunir á Marsróver, komið að tveimur eldflaugaskotleyfum, skipulagt geimfaraþjálfanir, stutt við stofnun nýsköpunarfyrirtækja, aukið þátttöku í alþjóðlegum verkefnum, opnað kynningaskrifstofu fyrir Copernicus og veitt rúmlega þrjátíu háskólanemum sumarstarf við geimtengd verkefni, svo að dæmi séu nefnd.“

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta