Gæði Háskólans á Bifröst staðfest
Háskólinn á Bifröst hefur nú fengið gæði skólans staðfest af hálfu Gæðaráðs íslenskra háskóla. Traust er borið til gæða prófgráða í bráð og lengd og námsumhverfis nemenda skólans.
Með þessari niðurstöðu lýkur úttekt Gæðaráðs á Háskólanum á Bifröst sem hófst með skýrslu frá skólanum og heimsókn úttektarnefndar Gæðaráðs í mars á síðastliðnu ári. Í úttektarnefndinni sjálfri sátu fjórir erlendir sérfræðingar og einn nemendafulltrúi.
Í september síðastliðnum sendi Gæðaráðið frá sér skýrslu um gæði Háskólans á Bifröst og lýsti þar trausti á námsumhverfi nemenda og á gæðum prófgráða til lengri tíma litið. Bent var á fimm atriði sem bæta þótti og lúta að stöðu skólans til að tryggja gæði prófgráða í bráð. Háskólinn á Bifröst hefur tekið á öllum þeim atriðum. Söfnun tölulegra gagna og úrvinnsla þeirra til að nýta við stjórnun og stefnumótun hefur verið stóraukin, skýr stefna til næstu ára hefur verið sett fram, úttekt á stjórnskipulagi og hlutverkaskiptingu í skólanum var hleypt af stokkunum, nýjar reglur hafa verið settar um fastráðningu akademískra starfsmanna og fjárhagsleg staða skólans verið bætt.
„Úttektarferli Gæðaráðs hefur reynst bæði gagnlegt og lærdómsríkt fyrir Háskólann á Bifröst og styrkt stöðu hans. Skólinn leggur mikinn metnað í að tryggja gæði náms og prófgráða og allar þær breytingar sem orðið hafa á starfsháttum skólans í ferlinu munu styrkja hann enn frekar,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst þakkar öllum þeim innan og utan skólans sem komið hafa að gæðaúttektinni fyrir mikilvægt framlag til að tryggja þá viðurkenningu sem nú liggur fyrir af hálfu Gæðaráðs um gæði náms og kennslu við Háskólann á Bifröst. Sjálf skýrslan um eftirfylgni gæðaúttektarinnar kemur út á næstu vikum og verður birt á vef Rannís.
Í Gæðaráði íslenskra háskóla sitja fimm erlendir sérfræðingar skipaðir af mennta- og menningarmálaráðherra á grundvelli laga um háskóla nr. 63/2006.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta