25. september 2015

Gæðaúttekt á Háskólanum á Bifröst lokið - gæði náms og kennslu staðfest

Gæðaúttekt á Háskólanum á Bifröst sem framkvæmd var af Gæðaráði íslenskra háskóla er nú lokið. Úttektin er liður í skipulegu eftirliti Gæðaráðs íslenskra háskóla með gæðum þeirra. Háskólinn á Bifröst er sjöundi, og jafnframt síðasti, háskólinn hér á landi sem gengst undir slíka gæðaúttekt í fyrstu umferð stofnanaúttekta á öllum háskólum landsins.

Háskólinn á Bifröst telur að allt ferlið hafi verið mjög gagnlegt fyrir skólann og verður til þess að bæta allt starf hans. Nemendur munu útskrifast úr enn betri skóla en áður.  Margar ábendingar komu fram um það sem vel er gert en einnig um það sem betur mætti fara. Skólinn hefur nú þegar brugðist við þeim athugasemdum sem fram koma í úttektinni með viðeigandi hætti.

Meginniðurstaða Gæðaráðsins er sú að það  ber traust til Háskólans á Bifröst varðandi námsumhverfi nemenda, en takmarkað traust að  hluta til varðandi möguleika skólans til að tryggja gæði prófgráða sem skólinn veitir og snýr það að núverandi stöðu skólans en ekki að framtíðarstöðu hans.   Gæðaráðið tekur fram að það bindi vonir við að uppfæra megi matið svo lýst verði  trausti á skólann. Áætlun um umbætur var gerð og kynnt.  Sumt hefur þegar verið framkvæmt en allt annað er í eðlilegum farvegi og vinnuhópar að störfum.  Starfi að gæðamálum lýkur aldrei en vonir standa til þess að nauðsynlegum áföngum verði náð innan fárra mánaða þannig að mat Gæðaráðs uppfærist. 

Háskólinn á Bifröst fær sérstakt hrós fyrir þætti sem snúa að námi og kennslu. Gæðaráðið nefnir ýmsa styrkleika og góða starfshætti, s.s. nýjungar í kennsluaðferðum og kennslutækni; verkefnamiðaða kennslu sem einkennist af hópavinnu nemenda; tengsl milli kennslu og reynslu í atvinnulífinu, reglubundið samstarf nemenda og kennara; virka þátttöku nemenda til að hafa áhrif á stjórnun háskólans; stuðningi nemenda við hvern annan; öflugt stuðningsumhverfi á háskólasvæðinu á Bifröst; áherslu Háskólans á hvern nemanda sem einstakling; öflugan starfsanda; vitund um styrkleika og veikleika í háskólastarfinu og fyrir að hafa lokið fagúttektum viðkomandi deilda með viðunandi hætti.

Þær athugasemdirnar sem gerðar eru vegna núverandi stöðu skólans til að tryggja gæði prófgráða eru þess eðlis að skólinn  hefur getað brugðist hratt og örugglega við þeim.  Þessar athugasemdir  lúta að takmarkaðri notkun á tölfræðilegum upplýsingum til að undirbyggja mat og áætlanagerð; lítilli viðleitni til að nota upplýsingar frá samanburðarháskólum; skorti á formlegri áætlanagerð; þörf á endurskoðun á stjórnsýslu Háskólans sem hefur ekki haldist í hendur við þróun hans; skorti á upplýsingum um vinnu brautskráðra nemenda; litlum tengslum á milli kennslu og rannsókna; skorti á akademísku starfsfólki með doktorsgráður; og skorti á formlegum aðferðum við ráðningu kennara og annars akademísks starfsfólks.

Drög að niðurstöðum skýrslunnar komust í fréttir fyrr á árinu. Háskólinn á Bifröst ásamt Gæðaráði og Rannís harma þessa ótímabæru umfjöllun um efni skýrslunnar, sérstaklega þar sem starfsfólk Háskólans á Bifröst var þá bundið trúnaði um efni hennar og hafði ekki heimild til að svara efnislega spurningum frá fjölmiðlum.  Umtalsverðar breytingar urðu á mati Gæðaráðsins eftir að athugasemdir bárust við skýrsludrögin frá Háskólanum á Bifröst og sú dökka mynd sem dregin var upp í fjölmiðlum og umræðum á samfélagsmiðlum var ekki í samræmi þær athugasemdir sem Gæðaráðið gerir við starfsemi skólans í lokaskýrslu sinni.

Skýrsluna má nálgast hér

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta