Fyrstu nemendurnir sem útskrifast úr áfallastjórnun ásamt fagstjóra greinarinnar, deildarforseta félagsvísindadeildar og rektor Háskólans á Bifröst.

Fyrstu nemendurnir sem útskrifast úr áfallastjórnun ásamt fagstjóra greinarinnar, deildarforseta félagsvísindadeildar og rektor Háskólans á Bifröst.

17. febrúar 2023

Fyrsti árgangurinn í áfallastjórnun

Brautskráning er jafnan stór stund í lífi þeirra sem ljúka námi á háskólastigi. Langþráðum áfanga hefur verið náð og framundan eru jafnvel ný tækifæri eða enn aðrir möguleikar en voru til staðar fyrir útskriftina. 

Það er svo ekki á hverjum degi sem útskriftarefni mynda fyrsta útskriftarárgang nýrrar námslínu á háskólastigi. Svo skemmtilega vill þó til að fimm einstaklingar fá þann heiður að vera fyrstu nemendurnir sem útskrifast úr áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst.

Þetta eru þau Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir, Ásta Særós Haraldsdóttir, Hugrún Fjóla Hannesdóttir, Karen Ósk Lárusdóttir og Kristín Rós Hlynsdóttir. Af þessum fríða hópi eru tveir nemendur að útskrifast með MA meistaragráðu, tveir með MCM meistaragráðu og einn með diplómu á meistarastigi. 

Í náminu hafa útskriftarefnin öðlast bæði faglega og hagnýta þekkingu á sviði áfallastjórnunar sem mun vonandi nýtast þeim vel í þeirra framtíðarstörfum. 

Í því felst að þeir hafa m.a. fræðst um viðbúnað vegna áfalla, hvernig forgreina skuli ógnir, meta áhættu og setja upp áhættustýringastefnu fyrir skipulagsheildir. Þeir hafa skoðað hvernig hegðun leiðtoga og hópa, sem og ríkjandi kúltúr, hefur áhrif á viðbrögð í áföllum og sett sig inn í samskipti á áfallatímum, sem er jafnframt ein af grundvallarforsendum fyrir virkri áfallastjórnun.

Hluti af áfallastjórnun er einnig að skipuleggja og leggja í aðgerðir sem miða að því að endurheimta eða bæta lífsskilyrði samfélags sem lent hefur í áfalli. Í námskeiði um neyðarstjórnun og endurreisn hafa nemendur enn fremur unnið drög að langtíma viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélög og notið samstarfs fulltrúa sveitarfélaganna í þeirri vegferð. Þá er sá lærdómur sem draga má af áföllum og hvað staðið geti í vegi lærdóms mikilvægur hluti af í náminu. Og hvað verklega hlutann varðar, þá hafa nemendur fengið kennslu og þjálfun í verkefnisstjórnun í neyðaraðgerðum og tekið þátt í viðamiklum æfingum.

Við óskum öllum í þessum fyrsta útskriftarárgangi til hamingju með árangurinn.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta