Ingunn Henriksen og Árdís Einarsdóttir ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar á verðlaunaafhendingu Gulleggsins fyrr í þessum mánuði.
17. febrúar 2022Fyrsta snjallforrit sinnar tegundar í heiminum
Bifrestingarnir Inga Henriksen og Árdís Einarsdóttir, standa að Lilju, nýju snallforriti sem er hugsað fyrir þolendur kynferðisofbeldis og vann nýlega til verðlauna á Gullegginu.
Snjallforritið eða appið er hannað sem bjargráður fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Við tilteknar aðstæður gerist hvort tveggja í senn, forritið hringir sjálfkrafa í 112 og kveikir á upptökubúnaði símans. Þessar tilteknu aðstæður skilgreinir notandinn að hluta til sjálfur. Sem dæmi þá má virkja forritið með leyniorði sem notandinn ákveður.
Með þessu móti kemur forrtið þolendum beinlínis til hjálpar á ögurstundu, auk þess að afla gagna sem styrkt geta réttarstöðu þeirra í réttarmeðferð. Að sögn Ingu og Árdísar er allri hugmyndavinnu lokið. Lokaútfærslan sé aðeins eftir ásamt fjáröflun til að koma forritinu á markað.
Gulleggið er ein elsta og stærsta frumkvöðlakeppnin hér á landi og hrepptu þær stöllur, Inga og Árdís, 3. sætið. Auk þess hrepptu þær tvenn aukaverðlaun frá annars vegar Huawei og hins vegar Verði og nam verðlaunafé þeirra því alls 700.000 kr.
Fram hefur komið í umfjöllun fjölmiðla m.a. að Lilja sé líklega eitt fyrsta forritið af þessari tegund í heiminum. Þá hefur verið haft eftir Ingu og Árdísi, að þær hefðu gjarnan viljað að svona app hefði verið til, þegar þær urðu sjálfar fyrir ofbeldi.
Forritið er vel falið í snjalltæki notandans, til þess að tryggja að gerandinn geti ekki fundið appið og séð eða hlustað á það sem síminn tekur upp.
Þá fá viðbragðsaðilar skýr fyrirmæli um að tala ekki, þegar forrtið hefur haft samband, heldur að hlusta og bregðast við aðstæðum með viðeigandi hætti. Og að sjálfsögðu gefur forritið upp staðsetningu atburða, svo að lögregla geti ásamt öðrum viðbragðsaðilum hraðað sér á vettvang.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta