Fyrsta hóprannsóknin á gervigreind 3. maí 2023

Fyrsta hóprannsóknin á gervigreind

Þótt gervigreindin skáki enn ekki háskólanemum í reikningsskilum, er mikilvægt að kennarar geri sig klára fyrir þær öru breytingar sem menntakerfi standa almennt frammi fyrir í fræðum og framkvæmd með framrás gervigreindarinnar. 

Í nýjasta tölublaði ritrýnda tímaritsins Issues in Accoundting Education er fjallað um rannsókn sem bar saman svör annars vegar nemenda í reikningsskilum og ChatGPT spjallmennisins hins vegar úr prófspurningum í reikningsskilum. Aðild að rannsókninni átti af hálfu íslenskra fræðimanna, Hanna Kristín Skaftadóttir, fagstjóri viðskiptagreindar og aðjúnkt við Háskólann á Bifröst. 

Um framkvæmd rannsóknarinnar sá David A. Wood, prófessor í reikningsskilum við bandaríska háskólann Brigham Young University, en að sjálfri rannsókninni stóðu 327 greinarhöfundar frá 186 stofnunum í 14 löndum. Er talið að um fyrstu stóru hóprannsóknina (e. crowd-sourced ) sé að ræða á fræðasviði reikningsskila. Háskólakennarar lögðu fram prófspurningar og svör úr eigin ranni og báru saman við niðurstöður gervigreindarinnar ChatGPT úr sömu spurningum.

 Söfnun upplýsinga í jafn stórt gagnasafn og hér um ræðir var gerlegt þar sem verulegur áhugi er á þróun gervigreindar innan þeirra háskóladeilda sem kenna reikningsskil. Akademískir starfsmenn þessara deilda víðs vegar um allan heim, gera sér þannig glögga grein fyrir þeim afleiðingum sem ChatGPT getur, ásamt annarri gervigreindartækni, haft í náinni framtíð á fræðasviði þeirra; þau hafa af þessum sökum áhuga á að skilja hvers konar áhrif þessi nýja tækni mun hafa á kennsluna hjá sér og hvernig kennslunni verði sem best hagað með tilliti til þessara verkfæra. 

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær, að nemendur stóðu sig í samanburði við spjallmennið heilt yfir betur í meira en 28.000 prófspurningum. Efnisflokkar og spurningargerðin hafði veruleg áhrif á frammistöðuna hjá ChatGPT að því leyti að spjallmennið stóð sig betur í spurningum sem vörðuðu upplýsingakerfi í endurskoðun, greiningar/tækni og úttektir, en þegar að spurningum kom sem snertu fjármál, stjórnun og skattamál stóðu nemendurnir sig betur. Að sama skapi reyndust krossaspurningar og rétt/rangt spurningar gervigreindinni auðveldari viðureignar en skriflegar spurningar. Gervigreindin náði þó ekki hærri meðaleinkunn en nemendurnir nema í 28% tilvika.

 Að sögn Hönnu Kristínar undirstrika niðurstöður rannsóknarinnar á heildina litið þann vanda sem menntun í reikningsskilum stendur frammi fyrir. Á sama tíma og búa verður nemendur undir að nýta gervigreindina í framtíðarstörfum þeirra, verður að gæta þess að þeir geti ekki nýtt sér þessa sömu tækni til að svindla í prófum eða öðru námsmati. Nemendur ásamt brautskráðu fagfólki sem hagnýtir gervigreind þurfa jafnframt að gæta sín á þeirri tilhneigingu spjallmenna að veita af miklu öryggi kolrangar upplýsingar. Það sýndi sig þannig í rannsókninni að ChatGPt rökstuddi oft og tíðum röng svör, skáldaði upp staðreyndir eða heimildir og kom jafnvel með kolranga útreikninga ef því var að skipta. 

Það er því að mati Hönnu Kristínar afar mikilvægt að nemendum verði gert kleift að laga sig að þessum breytingum í starfsumhverfi þeirra. Jafnframt bendir hún á að háskólar þurfi að beina sjónum sínum að því hvernig laga megi kennsluna að aukinni notkun gervigreindar. „Störf nemenda, að útskrift lokinni, verða gjörólík því sem áður hefur þekkst og við þurfum að skoða hvernig við viljum laga námið að þessar öru þróun. Mörg störf eru jafnvel að breytast verulega frá því að nemendur hefja nám og þar til þau útskrifast. Tækni er almennt og þá sérstaklega gervigeind að þróast það hratt.“ 

 Rannsóknin „The ChatGPT Artificial Intelligence Chatbot: How Well Does It Answer Accounting Assessment Questions?“ birtist í nýjasta tölublaði Issues in Accounting Education, en þetta ritrýnda tímarit er gefið út af samtökum endurskoðenda í Bandaríkjunum, American Accounting Association.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta