Francesco Macheda boðið til Kína að rannsaka viðskiptasamband Kína og Bandaríkjanna 1. júlí 2019

Francesco Macheda boðið til Kína að rannsaka viðskiptasamband Kína og Bandaríkjanna

Dr. Francesco Macheda, lektor í stjórnmálahagfræði við Háskólann á Bifröst, hefur verið boðið að heimsækja Alþjóða stjórnmála og hagfræði stofnunina (IWEP) í Kína til að vinna að rannsókn sinni sem ber heitið "The Self-Defeating US Protectionist Trade Policy: A View From China ".

IWEP er ein af virtustu rannsóknarstofnunum á sviði alþjóðlegrar þjóðhagfræði, alþjóðaviðskipta, iðnaðarhagfræði og alþjóðlegra stjórnmála. Stofnunin er partur af einni virtustu akademíu í Asíu, þ.e. Kínversku félagsvísinda akademíunni (CASS).

Francesco fer til Kína núna í september og verður þar fram í desember. Þar mun hann rannsaka hvort ofmat á gengi Bandaríkjadals gagnvart kínverska Yuaninu hafi haft mælanleg og bein áhrif á fjárfestingarstig, atvinnuástand og raunlaun í Bandaríkjunum síðustu þrjá áratugina.

Rannsóknarferð Dr. Macheda til þessarar virtu stofnunar er ætlað að styðja enn frekar við alþjóðavæðingarferli Háskólans á Bifröst sem hefur verið ein af aðaláherslum skólans undanfarin ár.

Við óskum Francesco, sem og Írisi Stefánsdóttur unnustu hans og syni þeirra Pietro Stefáni, sem munu fylgja honum í ferð sinni til Kína, alls hins besta. Við erum sannfærð um að þetta verkefni muni hafa jákvæð áhrif á rannsóknarstarfsemi háskólans og auka alþjóðlega samtengingu sem mun nýtast öllum þeim sem vinna að rannsóknum við skólann sem og nemendum.

Hér má finna nánari upplýsingar um IWEP og CASS.