Framtíðarsetur Íslands stofnað
Framtíðarsetur Íslands var stofnað í dag 22. október 2015 að viðstaddri Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra.
Aðild að setrinu eiga KPMG, Háskólinn á Bifröst og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Framtíðaráskoranir fyrir íslenskt samfélagi verða sífellt meira ögrandi fyrir fyrirtæki, stofnanir og almenning. Er það ekki hvað síst vegna örari tækninýjunga, breytinga á sviði umhverfismála, ógnana á alþjóðavettvangi og félagslegra breytinga sem eiga sér stað.
- Þekking okkar byggir yfirleitt á fortíðinni, en allar ákvarðanir sem við tökum snúast um framtíðina.
- Við sköpum framtíð okkar með því sem við gerum eða gerum ekki í dag.
- Þar koma framtíðarfræðin að bestum notum - til að skilja hvernig framtíðin lítur út áður en við þurfum að bregðast við.
Þannig má segja að nú sé kominn tími til að við Íslendingar hættum að rýna í baksýnisspegilinn og förum að einbeita okkar að því að horfa til framtíðar.
Stofnendur Framtíðarseturs Íslands vilja með stofnun setursins koma á laggirnar metnaðarfullri starfsemi hér á landi á sviði rannsókna og þjónustu, í samstarfi við ólíka aðila samfélagsins, um margvíslega framtíðarrýni.
Rannsóknir og þjónusta á þessu sviði í gegnum framtíðarstofnanir, setur og/eða háskóla er starfrækt í öllum samanburðarlöndum Íslands. Rannsóknirnar og þjónustan eru notaðar við stefnumótun, til að skapa og þroska umræðu um álitamál samfélaga, byggðaþróun og við áhættumat í tengslum við ákvarðanir svo sem á sviði fjárfestinga og hverskyns vá. Erlendis er framtíðarfræði viðurkennd fræðigrein innan félagavísinda en henni hefur hins vegar verið minni gaumur gefinn af háskólasamfélaginu hérlendis hingað til.
Framtíðarsetur Íslands mun leggja áherslu á innleiðingu aðferða og hugsjóna framtíðarfræða inn í almennt háskólanám og bjóða stjórnvöldum, fyrirtækjum og stofnunum aðgang að bæði sviðsmyndagreiningu ásamt öðrum aðferðum fræðigreinarinnar.
Með stofnun setursins vilja aðstandendur þess auka við fagleg viðhorf þegar framtíðin er metin. Setrið er stofnað til almannaheilla, þ.e. þeim hagsmunum almennings sem felast í markmiðum setursins:
„Að vera leiðandi rannsóknasetur á sviði framtíðarfræða hérlendis í öflugu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir hérlendis sem og erlendis. Hlutverk félagsins verður ekki að afla eigendum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstrinum og mun félagið ekki greiða félagsmönnum sínum arð.“ Setrið skal vera virkur þátttakandi í rannsóknarverkefnum er varðar samfélagstengda framtíðarþróun og önnur samfélagsverkefni.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta