Frábært tækifæri fyrir konur með viðskiptahugmynd 19. nóvember 2018

Frábært tækifæri fyrir konur með viðskiptahugmynd

Máttur kvenna er 11 vikna námskeið fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja. Námið er haldið á vegum símenntunar Háskólans á Bifröst og hefur átt miklum vinsældum að fagna en nú hafa útskrifast um 1000 konur úr náminu.

Helga Ósk Hannesdóttir er fædd árið 1976. Hún er gift, þriggja barna móðir og er búsett í Reykjavík. Helga útskrifaðist úr Kennaraháskólanum árið 2001 og úr viðskiptafræði frá Auburn University, Montgomery árið 2005. Síðustu 10 árin hefur Helga starfað sem sérfræðingur í markaðsgreiningum fyrir fyrirtækið Vistor.

Helga hafði gengið með ákveðna viðskiptahugmynd í maganum um hríð en þegar hún var nýbúin að sækja um kennitölu fyrir fyrirtæki um þá hugmynd rak hún augun í auglýsingu á samfélagsmiðlum þar sem auglýst var námskeiðið Máttur kvenna. Fannst henni námskeiðslýsingin höfða til sín og að þarna væri tækifæri til að öðlast meiri færni og þekkingu í rekstri fyrirtækja.

Aðspurð um námskeiðið segir Helga það hafa verið mjög fjölbreytt og lærdómsríkt. Það hafi í raun snert á flestum flötum sem skipta mestu máli varðandi rekstur fyrirtækja. Kennarar námskeiðsins eru reynslumiklir á sviðinu og ávallt reiðubúnir til að aðstoða og ráðleggja eins og með þarf.

,,Það sem mér finnst standa upp úr var að kynnast öllum þeim flottu konum sem sóttu námskeiðið. Þetta voru konur á öllum aldri, með ólíka menntun og reynslu. Það er ómetanlegt að geta deilt hugmyndum og fá ráðleggingar frá konum sem eru í svipuðum hugleiðingum.“ segir Helga.

Að námskeiðinu loknu finnst Helgu hún hafa mun betri innsýn í rekstur fyrirtækja. Hún hefur nú þegar stofnað fyrirtæki sem ber heitið Pottery Krús, þar sem hópar koma saman til þess að mála á keramík. Nú hefur hún öðlast ýmis verkfæri til þess að koma viðskiptahugmyndinni á næsta stig og er fær um að vinna sjálf rekstrar-, markaðs-, og fjárhagsáætlanir svo að eitthvað sé nefnt.

Fyrir þær sem eru að hugsa um að taka námskeiðið Máttur kvenna vil ég bara að segja að þetta er frábært tækifæri fyrir konur með viðskiptahugmynd eða þær sem eru nú þegar í viðskiptarekstri til þess að styrkja sig enn frekar.“

Næsta námskeið í Mætti kvenna hefst 18. janúar 2019 og skráningarfrestur er 20. desember 2018. Allar nánari upplýsingar um námskeiðið má nálgast hér.

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta