5. september 2023

Frábærir fyrirlesarar

Það stefnir í spennandi staðlotu hjá grunnnemum dagana 8. til 10. september nk. Fjöldi gestafyrirlestra verður í boði í Hjálmakletti og má segja að hver sé öðrum áhugaverðari.

Má þar fyrstan nefna Alexander Solbacken sem er Creative Technologist hjá norsku auglýsingastofunni TRY Creative Tech. Alexander er gestafyrirlesari í námskeiðinu Stafræn markaðssetning og snýr fyrirlestur hans að gervigreind og markaðsmálum. TRY hefur verið valin besta auglýsingastofa landsins í 20 ár í röð og er stofan með sérhæft gervigreindarteymi sem vinnnur að þróun lausna með gervigreind. Umsjónarmenn námskeiðsins eru þau Bárður Örn Gunnarsson og Vera Dögg Höskuldsdóttir.

Þá verður Hanna Kristín Skaftadóttir með tvo gestafyrirlesara á sínum vegum, eða annars vegar Shawn Liu frá Rutgers University, sem verður með fjarfyrirlestur í SRPA sjálfvirknivæðingu og hins vegar Berglindi Klöru Daníelsdóttur frá Deloitte sem fjallar um ársreikninga og fjárhagsbókhald í samnefndu námskeiði. 

Sóknarpresturinn á Mýrum, Heiðrún Helga Bjarnadóttir, verður jafnframt með Skúla Sigurði Ólafssyni í Þjónandi forystu og stjórnun og í Inngangi að stjórnun og stefnumótun fær Álfheiður Eva Óladóttir Aldísi Örnu Tryggvadóttur, viðskiptafræðing og markþjálfa, í heimsókn, sem er reyndar búsett á Hvanneyri og má því segja að hægt sé um heimatökin hjá henni. 

Í Opinberri stjórnsýsla I, Stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti verður Katrín Oddsdóttir með gestafyrirlestur, en hún er einn fremsti sérfræðingur landsins í stjórnskipunarrétti, sat m.a. á stjórnlagaþingi. Katrín stundar doktorsnám í Háskóla Íslands í verkefninu lýðræðisleg stjórnarskrárgerð. Í gestafyrirlestrinum fjallar Katrín í víðu samhengi um stjórnarskránna, stjórnlagaþingið, nýju stjórnarskránna og almennt spjall og hugarflug um stjórnarskránna. 

Síðast en ekki síst verður Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Eflu, gestur Elínar H. Jónsdóttur í Stjórnarháttum fyrirtækja og í samvinnu við námskeiðið Félagarétt sem Unnar Steinn Bjarndal og Erna Sigurðardóttir sjá um. Sæmundur mun ræða um hlutverk og samskipti milli forstjóra og stjórna og hvernig það getur verið breytilegt eftir aðstæðum fyrirtækja, en hann þekkir sem reyndur stjórnandi þessi ólíku hlutverk afar vel frá báðum hliðum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta