Frá Bifröst til Suður-Afríku 23. febrúar 2016

Frá Bifröst til Suður-Afríku

Lilja Marteinsdóttir útskrifaðist með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2008 og meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Lancaster. Lilja segir veruna á Bifröst hafa gefið sér byr undir báða vængi og þeir hafi fleytt henni alla leið til Suður-Afríku þar sem hún hefur búið og starfað um árabil.

Lilja setti nýverið á laggirnar sjálfboðliðastarf fyrir ungmenni á aldrinum 15-20 ára en með starfinu gefst ungmennunum tækifæri á að víkka heimssýn sína og láta til sín taka undir leiðsögn og í öruggu umhverfi. Lilja miðlar þar af eigin reynslu en hún unnið hjálparstarf með ýmsum sjálfboðaliðasamtökum í kringum Cape Town.

„Ég hef einnig tekið þátt í hinum ýmsu skiptiprógrömmum og veit því af eigin reynslu hversu mikið það gefur manni að öðlast nýja heimsýn og víkka sjóndeildarhringinn út fyrir litla Ísland,“ segir Lilja.  

Samstaðan á Bifröst engu lík

Lilja var við nám í Frumgreinaeild Tækniháskólans, nú Háskólans í Reykjavík, þegar hún komst yfir kynningarbækling frá Háskólanum á Bifröst og segir að þá hafi ekki verið aftur snúið.

„Lífið á kampus heillaði mig og mér fannst þetta kjörið tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og taka þátt í lífi og leik fyrir utan Reykjavík. Ég mæli með Bifröst fyrir alla sem eru í leit að ákveðnum tilgangi því Bifröst er fullkominn staður til að kúpla sig útúr sínu daglega umhverfi og umvefja sig fólki sem er á sama stað og maður sjálfur í lífinu. Samstaðan er engu lík og ómetanleg og maður býr ævilangt að því sjálfsöyggi sem maður öðlast í gegnum námið,“ segir Lilja.

Lilja lauk námi í frumgreinadeild háskólans og í framhaldinu BS gráðu í viðskiptafræði og segir hún námið hafa nýst sér í öllu því sem hún hafi tekið sér fyrir hendur að námi loknu.  Mikil verkefnavinna og hópastarf, sem einkenndu námið, hafi hjálpað sér að takast á við þau ótal mismunandi verkefni sem hún hafi tekist á við síðustu ár. 

Hvað er eftirminnilegast frá námsárunum á Bifröst?

„Í raun var öll mín vera á Bifröst eitthvað sem ég mun alltaf búa að þó stendur árið í frumgreinadeildinni og skiptinámið í Malasíu upp úr. Samstaðan í frumunni var engu lík og vinirnir sem maður eignaðist, sérstaklega, á þessu fyrsta ári á Bifröst, eru ómetanlegir. Að sitja með hópi fólks alla nóttina með 10 lítra af volgu kaffi uppi í Himnaríki, í óðaönn að ná verkefna skilafrest, er eitthvað sem ég væri alveg til í að gera allavega einu sinni enn. Við fórum svo tvær vinkonurnar í skiptinám til Malasíu og þá notuðum tækifærið til að ferðast um alla Suð-Austur Asíu. Það var ógleymanlegt og klárlega þáttur í að seinna stökk ég á tækifærið að flytja hingað til Afríku,“ segir Lilja.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um sjálfboðaliðastarfið á heimasíðunni http://www.nordursudur.org

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta