Frá Bifröst til New York
Sandra Ýr Pálsdóttir Zarabi lauk BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti frá Háskólanum á Bifröst í febrúar síðastliðnum og hlaut hæstu einkunn í grunnnámi við viðskiptadeild. Hún hefur nú hlotið inngöngu í meistaranám í samþættri markaðsstjórnun með áherslu á vörumerkjastjórnun við New York University.
„Ég hafði mjög skýrt markmið í huga sem var að komast í þetta meistaranám og sá að viðskiptafræðin á Bifröst hentaði mér langbest miðað við þær undirbúningskröfur sem gerðar eru í því námi auk þess sem fjarnámið heillaði mig. Ég hóf nám með vinnu haustið 2015 en sá hins vegar fljótt að það myndi ekki duga til að fá þær einkunnir sem ég vildi. Ég hætti því í vinnunni og sinnti náminu eins og dagvinnu, var mætt á bókasafn klukkan 8 á morgnana til að horfa á fyrirlestra og lærði þar til ég fór og sótti strákinn minn í skólann. Ég var mjög ánægð með námið og fannst það frábær upplifun fyrir mig. Þú getur mögulega upplifað þig svolítið týndan í fjarnámi en ég fann alls ekki fyrir því þar sem ég kynntist fljótt hópi fólks sem hélt hópinn allan tímann í náminu. Eins var ég mjög dugleg að vera í miklum samskiptum við kennara og lagði áherslu á að þeir vissu af mínum markmiðum. Það skilaði sér enda reyndust þeir mér afar hjálplegir í umsóknarferlinu,“ segir Sandra Ýr.
Hún segir áhugann á þessu tiltekna meistaranámi hafa kviknað þegar hún starfaði um tíma við markaðsstörf í New York. Þá hafi hún sökkt sér ofan í markaðsfræði og horft mikið á fyrirlestra því tengdu á internetinu t.a.m. frá NYU. Henni hafi líkað þeir vel og eins lífið í stórborginni auk þess sem hún kynntist þar manninum sínum svo allt kom þetta heim og saman og hún varð staðráðin í að finna út leið til að ná takmarki sínu.
„Umsóknarferlið tók alls eitt ár, ég byrjaði að leita til eins af kennurunum mínum, Húna Jóhannessonar, og fór í kjölfarið á fund með fulltrúa frá Fullbright samtökunum. Upp úr því hófst ferlið fyrir alvöru en það felur í sér að taka nokkur próf þar sem ná þarf vissum einkunum. Þar að auki þarf að skila inn mjög vel unninni ferilskrá, meðmælum frá prófessor sem hefur helst kennt þér oftar en einu sinni og getur mælt með þér á þessa tilteknu braut, sem og meðmæli frá einhverjum úr atvinnulífinu sem hefur unnið með þér. Þetta fólk þarf bæði að senda skólanum bréf og mæla með þér og svara spurningum frá skólanum m.a. annars um hvernig þú gætir bætt þig. Að lokum þarf að skila inn svokölluðu personal statement þar sem þú mælir með sjálfum þér og sýnir m.a. fram á hvernig þú takist á við hindranir og mótbárur. Þetta fannst mér einna erfiðast en þá bjó ég vel að því að eiga enskumælandi mann sem aðstoðaði mig. Eins voru þær yndislegar á kennslusviði Háskólans á Bifröst við að aðstoða mig t.d. við að koma einkununum mínum yfir á alþjóðlegan skala. Þá langar mig að nefna sérstaklega Brynjar Þór Þorsteinsson, lektor við viðskiptadeild, hann var mér stoð og stytta og ég var mjög spennt að segja honum fréttirnar af því að ég hefði komist inn. Það er ekkert sjálfgefið að eiga svo gott samband við kennara sinn,“ segir Sandra Ýr.
Af þeim sem sækja um komast um 30% nemenda að og af þeim prósentum eru aftur 30% alþjóðlegir nemendur. Sandra Ýr segir þetta hafa verið lærdómsríkt ferli hingað til og allt sé hægt með aga og metnaði. Hún flytur ásamt manni sínum og syni til New York nú í vor og þá tekur við strembið nám en nemendur þurfa að halda uppi ákveðinni lágmarks meðaleinkun og markmiðið að útskrifa þannig eingöngu samkeppnishæfa einstaklinga.
Að námi loknu segist Sandra Ýr vera beggja blands um að halda áfram í doktorsnámi og geta þá sinnt kennslu eða halda út í atvinnulífið. Há prósenta nemenda útskrifast úr náminu með atvinnutilboð og miðar skólinn að því að leiða fólk þar í rétta átt. Helst hefur Sandra Ýr þá hug á starfi á sviði hátísku og vörumerkjastjórnun innan þess geira en hún segist ætla að sjá hvernig málin þróist.
Á myndinni er Sandra Ýr ásamt Vilhjálmi Egilssyni, rektor (t.v.) og Sigurði Ragnarssyni, forseta viðskiptadeilar (t.h.).
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta