Félagsmálaráðherra  heilsar upp á úkraínsk mæðgin. Í bakgrunni má sjá Margréti Jónsdóttur Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

Félagsmálaráðherra heilsar upp á úkraínsk mæðgin. Í bakgrunni má sjá Margréti Jónsdóttur Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

25. apríl 2022

Forsetahjónunum vel fagnað á Bifröst

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reed, forsetafrú og Guðmundur Ingi Guðbrandssson, félagsmálaráðherra, fengu höfðinglegar móttökur er þau sóttu úkraínska flóttafólkið heim á Bifröst sumardaginn fyrsta.

Forsetahjónin boðuðu ásamt föruneyti komu sína á Bifröst til að heilsa upp á flóttafólkið. Boðið var upp á kaffi og kökur í Kringlunni og hafði flóttafólkið veg og vanda af undirbúningi móttökunnar. Var gestunum vel fagnað og er óhætt að segja að glatt hafi verið á hjalla þennan fyrsta sumardag ársins.

Nýju heimamennirnir á Bifröst gripu tækifærið og sýndu forseta og félagsmálaráðherra þá aðstöðu sem komið hefur verið upp innan Bifrastar. Hefur m.a. verið sett upp virkniherbergi með leikaðstöðu fyrir börn og lítilli kennslustofu. Þá hefur verið opnuð birgðastöð, en þangað geta íbúarnir frá Úkraínu sótt eftir þörfum í gjafavarning ýmiss konar, sem spannar allt frá smærri búsáhöldum og leikföngum að spilum, fötum, teppum og skrautmunum.

Alls eru nú 63 flóttamenn búsettir á Bifröst. Von er svo á 20 til 25 manns til viðbótar í dag er því gert ráð fyrir að hópurinn telji um 90 manns nú um helgina.

Um bráðabirgðahúsnæði er að ræða fyrir hópinn, sem samanstendur af fólki af báðum kynjum og á öllum aldri, þó aðallega konum, börnum og ungu fólki, á meðan verið er að greiða götu þess varðandi búsetu hér á landi.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta