Fjölmiðlafólk framtíðarinnar heimsækir RÚV og Hringbraut 29. mars 2016

Fjölmiðlafólk framtíðarinnar heimsækir RÚV og Hringbraut

Nemendur í áfanganum Fjölmiðlafærni við háskólann á Bifröst fóru á dögunum í vettvangsferð á Ríkisútvarpið og Hringbraut en kennari áfangans er hin landskunna fjölmiðlakona Sigríður Arnardóttir eða Sirrý eins og flestir þekkja hana. Hefur hún unnið á öllum stæstu fjölmiðlum landsins og starfar nú á Hringbraut.
 
„Vísindaferðin með nemendum í Fjölmiðlafærni gekk mjög vel. Við fórum í skoðunarferð um útvarps- og sjónvarpsstúdíó RÚV og skoðunarferð um Hringbraut, bæði sjónvarpsstöð, útvarpsstöð og netmiðilinn hringbraut.is. RÚV eigum við jú öll saman og það er gagnlegt að þekkja innviðina og gaman að sjá hvernig aðstaðan er í raun bak við tjöldin. Hringbraut er síðan nýr, ókeypis miðill og gott fyrir nemendur að sjá hvernig þetta vinnst allt saman í dag þ.e. sjónvarp, útvarp og netið. Þau fengu að æfa sig í að taka viðtöl og vera í viðtölum í stúdíói á Hringbraut,“ segir Sirrý.
 
Sirrý veit af eigin reynslu að slík þjálfun skiptir máli en hún lærði fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og var síðan í framhaldsnámi hjá fjölmiðlasamsteypu í Bandaríkjunum. Hún segir mikilvægt að þekkja fjölmiðlaheiminn og störf innan hans, sama hvort fólk hugsi sér að vinna beint eða óbeint við fjölmiðla.
 
„Vissulega er mikilvægt að þekkja kenningar og fræðin á bak við fjölmiðlana, lagasetningar og viðskiptalífið en slíkt dugar ekki til ef þú getur ekki miðlað eða komið efninu frá þér. Þess vegna er gaman að fá að byggja upp kennslu í Fjölmiðlafærni svo og í Framsækni – örugg tjáning sem ég kenni líka við háskólann. Háskólinn á Bifröst er líka skóli sem á sér langa sögu sem menntastofnun sem skilar frá sér félagsmálatröllum og fólki sem tekur virkan þátt í samfélaginu,“ segir Sirrý.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta