Fjölmenn brautskráning frá Háskólanum á Bifröst
Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði 130 nemendur úr öllum deildum skólans í dag, laugardaginn 13. júní, við hátíðlega athöfn á Bifröst.
Bifröst á erindi við íslenskt samfélag
Í ræðu sinni lagði Vilhjálmur áherslu á að Háskólinn á Bifröst ætti erindi við íslenskt samfélag og að skólinn hefði það að markmiði að útskrifa forystufólk fyrir atvinnulíf og samfélag. „Gráður koma ekki sjálfkrafa í Háskólanum á Bifröst. Fyrir þeim þarf að hafa og oft eru vinnudagarnir langir og strangir. En erfiðið í skólanum er góður undirbúningur undir það sem verður. Við Háskólann á Bifröst lærir fólk ekki einungis það sem í bókunum stendur eða það sem fram kemur í fyrirlestrum og í umræðum í tímum. Eitt af helstu gildum skólans er samvinna og mikið er lagt uppúr því að nemendur læri að vinna saman, treysta hver öðrum og hjálpast að við að leysa verkefni. Hæfileikinn til þess að vinna með öðru fólki er afar verðmætur og menntun af þessu tagi nýtist í öllum störfum alltaf og alls staðar“.
Lærum af mistökum
Þá fjallaði hann um að allir gerðu mistök og að þau væru til að læra af þeim. „Við gerum öll mistök. Þau verða af alls konar ástæðum. Sum mistök eru okkar eigin að öllu leyti. Stundum höfum við haft væntingar til utanaðkomandi þátta sem ekki gengu upp. En hvernig sem mistök okkar eru til komin vöxum við af því að kannast við þau og reyna okkar besta til að koma í veg fyrir að gera sömu mistök aftur og læra þannig af reynslunni. Áhætta er hluti af lífinu. Við megum ekki vera svo hrædd við að gera mistök að við þorum ekki að taka áhættu. Við eigum hins vegar að taka yfirvegaða áhættu. Vita að við getum hugsanlega verið að gera mistök en passa okkur alltaf á því að fúska ekki með það sem við höfum lært“.
Þurfum samvinnu í samkeppni
Vilhjálmur ræddi um mikilvægi samvinnu sem er eitt af gildum Háskólans á Bifröst. „Samvinna er eitt af helstu gildum Háskólans á Bifröst og þess vegna er áhugavert að velta því fyrir okkur hvernig stendur á því að samvinna og samkeppni séu tvær hliðar á sama peningnum. En hvað þýðir þetta nákvæmlega? Jú, að við þurfum samvinnu til að ná árangri í samkeppni og líka að við þurfum samkeppni til að ná árangri í samvinnu.
Hvernig skýrum við að við þurfum samvinnu til að ná árangri í samkeppni? Við vinnum langoftast í hópi eða liði. Í vinnunni í fyrirtækinu eða stofnuninni eða á heimilinu. Við erum oftast að stefna að einhverju marki sem krefst þess að við vinnum saman. Í hópíþróttum náum við ekki árangri nema að liðið sé vel samstillt. Það sama gerist í fyrirtæki. Starfsfólkið þarf að vinna vel saman. Það er alltaf megin forsenda. En þurfum við samkeppni til á ná árangri í samvinnu? Spáum í samfélag eins og okkar. Við erum með mikla verkaskiptingu. Fyrirtæki og einstaklingar sérhæfa sig hver á sínu sviði. Í því liggur samvinnan. Samfélagið samanstendur af margvíslegum einingum sem hafa samvinnu sín á milli með alls konar viðskiptum og samskiptum. Og þegar upp er staðið gengur velgengni samfélagsins út á að réttu fyrirtækin séu að gera réttu hlutina eins vel og hægt er. Hér á Bifröst erum við einmitt að efla fólk til að standa sig í samkeppninni um hlutverk í því mikla samvinnuverki sem samfélagið er.“
Vilhjálmur óskaði útskriftarnemum til hamingju með áfangann hvatti nemendur til að leggja rækt við Bifrastargildin og að þekkja muninn á metnaði og græðgi. Einnig þakkaði hann öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til samfélagsins í Norðurárdalnum, nemendum og starfsfólki skólans, hollvinum, fulltrúaráði og stjórn.
Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun hlutu, Ásgeir Rúnar Viðarsson í Háskólagátt, Sigurbjörg R. Hjálmarsdóttir af viðskiptasviði fyrir hæstu einkunn grunnnema, Fanney Daníelsdóttir fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi á viðskiptasviði, Elsa Guðrún Jónsdóttir fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi á lögfræðisviði og Hlynur Jónsson fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi á félagsvísindasviði.
Að auki fengu eftirfarandi fjórir nemendur felld niður skólagjöld á vorönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, þau Svanberg Halldórsson á viðskiptasviði, Björn Líndal Traustason á lögfræðisviði, Tjörvi Schiöth og Sigurður Kaiser Guðmundsson á félagsvísindasviði.
Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru, Elís Bergur Sigurbjörnsson fyrir hönd nemenda úr Háskólagátt, Thelma Dögg Kvaran af viðskiptasviði fyrir hönd grunnnema og Kristján Örvar Sveinsson af lögfræðisviði fyrir hönd meistaranema.
Í ávörpum fulltrúa allra útskriftarhópa kom fram mikil ánægja með að hafa valið Háskólann á Bifröst. Verkefnaálag væri mikið en það væri gott veganesti fyrir framtíðina. Talað var um mikla samkennd á meðal nemenda og að Háskólinn á Bifröst væri góður skóli til að öðlast framúrskarandi menntun.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta