Fjölbreytileiki eykur möguleika á góðum hugmyndum 10. október 2016

Fjölbreytileiki eykur möguleika á góðum hugmyndum

Dr. Sherry Robinson, lektor í viðskipta- og hagfræði við Penn State háskólann í Hazleton, Pensylvaníu, er Fullbright gestakennari við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst nú á haustönn. Samhliða vinnur Sherry að rannsókn sinni á notkun leikja í námi.
 
Sherry er ekki óvön því að vera á faraldsfæti en hún hefur kennt tímabundið bæði í Noregi og Víetnam. Hún segist hafa þá framtíðarsýn að kenna hópi nemenda frá ýmsum menningarheimum í heimalöndum þeirra til skiptis og skapa þannig lifandi og frjótt námsumhverfi.

Eykur möguleika á góðum hugmyndum

„Það gagnast nemendum einstaklega vel að vinna með samnemendum frá öðrum menningarheimum og ég sæi fyrir mér samvinnu nemenda héðan frá Bifröst, Noregi og Penn State. Um leið verður slíkur fjölbreytileiki oftast til þess að auka möguleika á að góðar hugmyndir verði til í viðskiptaumhverfinu,“ segir Sherry.
 
Sherry leggur sig fram um að gera kennslustundir sínar líflegar og fá nemendur til að taka þátt í ýmis konar leikjum og spurningakeppnum sem tengjast námsefninu. Hún segir slíkt auka áhuga nemenda á námsefninu og gera það enn áhugaverðara. Sherry hefur kennt hópi skiptinema á Bifröst nú í haust og segir það hafa verið afar gefandi.
 
„Það er mikill fengur fyrir okkur á Bifröst að fá Dr. Sherry til okkar. Hún er afar fær á sínu sviði og er mikil fagmanneskja, kraftmikil og vinnur jafnt með nemendum sem starfsliði skólans. Hún hefur nú þegar lagt mikið af mörkum og er vinsæl meðal nemenda sinna" segir Sigurður Ragnarsson, forseti viðskiptadeildar.

Viðskiptaáhuginn nær langt aftur

Doktorsritgerð Sherry fjallaði um smáfyrirtæki kvenna á dreifbýlissvæðum, en áhuga hennar á viðskiptum má rekja aftur til barnæsku.
 
„Móðir mín stofnaði fyrirtæki um það leyti sem ég var að hefja grunnskólanám þar sem hún vildi geta unnið en verið heima hjá okkur krökkunum eftir skóla. Ég ólst því upp við að eiga móður sem rak fyrirtæki og það kveikti áhuga minn á að sækja mér viðskiptamenntun sem síðan leiddi til þess að ég fór að kenna viðskiptafræði en ég hef unnið við Penn State háskóla frá árinu 1995, “segir Sherry sem er með doktorsgráðu í stjórnun.
 
„Ég vil nota tækifærið til að þakka samstarfsfélögum mínum hér á Bifröst, þeim Sigurði Ragnarssyni og Ingólfi Arnarsyni, kærlega fyrir mikla velvild í minn garð. Siggi hefur lagt sig fram um að ég hafi allt til alls og njóti veru minnar hér. Um leið vil ég koma áleiðis þakklæti til Penn State háskóla fyrir að veita mér þetta rannsóknarleyfi til að ég gæti komið og kennt hér við Bifröst,“ segir Sherry.
 
Sjá má myndband og viðtal við Sherry hér að neðan.
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta