Soffía Dagmar sat fyrir svörum í fjarnámsráðgjöf í Smáralindinni sl. laugardag.

Soffía Dagmar sat fyrir svörum í fjarnámsráðgjöf í Smáralindinni sl. laugardag.

4. desember 2023

Fjarnámsráðgjöf í beinni í Smáralind

Háskólinn á Bifröst stóð fyrir sinni fyrstu fjarnámsráðgjöf í Smáralind sl. laugardag við góðar undirtektir. Var gestum og gangandi boðið að ræða við ráðgjafa um fjarnám á háskólastigi síðdegis þennan dag, en fyrir svörum sat Soffía Dagmar Þorleifsdóttir, verkefnastjóri á kennslusviði. Sjálf var Soffía staðsett á starfsstöð sinni á Bifröst.

Fjöldi fólks reyndist hafa áhuga á að spjalla við ráðgjafann, þó ekki allir vegna námsins sem Háskólinn á Bifröst hefur á boðstólum. 

„Þetta var mjög skemmtilegt hjá okkur og var spurt bæði um grunnnámið og meistaranámið,“ segir Soffía um þessa fyrstu fjarnámsráðgjöf. „Margir héldu reyndar að ég væri auglýsing og einnig þurfti ég þó nokkrum sinnum að taka fram að ég væri ekki gervigreind," bætir hún hlægjandi við.

Fylgir jafnframt sögunni að sumum hafi þótt talsvert til auglýsingarinnar koma fyrir að vera með viðeigandi svar við öllum spurningum. „Já, það gat tekið smá tíma að sannfæra viðmælendur um að ég væri hvorki auglýsing né gervigreind," játar hún brosandi. 

Markmiðið með þessu skemmtilega uppátæki var að vekja athygli á kostum þess að vera í fjarnámi við Háskólann á Bifröst - annað hvort grunnnámi eða meistaranámi - eða við Endurmenntun Háskólans á Bifröst, sem býður bæði örnámsgráður og stök námskeið til ECTS eininga.

Varðandi það, á hverju fólk hafði helst áhuga segir Soffía að hún hafi fengið fjölbreyttar spurningar um háskólann og fjarnámið. Sjálft fjarnámið var þó helst í brennidepli, tæknin og þeir möguleikar sem námið felur í sér. „Það skemmtilega við þessa nálgun, að ræða við fók í beinni frá Bifröst, er að að fólk virðist hafa fengið sterkari eða betri upplifun á því hvað fjarnám standi í raun fyrir og þeim mörgu möguleikum sem það felur í sér." 

Fyrir þá sem langar að hefja nám nú eftir áramót má svo bæta við að tekið er við umsóknum til 11. desember nk. Hér má svo einnig fá aðgengilegar upplýsingar um námið sem býðst við háskólann

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta