Fjármálakreppa og efnahagsleg sjálfbærni 8. desember 2021

Fjármálakreppa og efnahagsleg sjálfbærni

Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir er meðhöfundur að áhugaverðri grein sem fjallar um sameiginlega þætti hjá áðurnefndum samfélögum, sem urðu til þess að dýpka fjármálakreppur. Greinin nefnist Financial crisis, governance and sustainable island futures : comparing Iceland and Newfoundland and Labrador og birtist í Small State & Territories Journal. Útgefandi er Islands and Small State Institute stofnunin við Háskólann í Möltu. 

Í útdrætti greinarinnar segir m.a. að efnahagsleg sjálfbærni sé skilyrði fyrir sjálfbærni samfélaga og tengist stjórnarháttum sem og félags- og umhverfisvíddum sjálfbærni. Fjármálakreppur geti jafnframt spunnist út fyrir hið efnahagslega svið og orðið að pólítískum áföllum þar sem tekist er á um pólitískt lögmæti og ábyrgð.

Í rannsókninni eru borin saman áföll vegna bankahrunsins á Íslandi árið 2008 og fjárhagslegra áfalla vegna Muskrat Falls vatnsaflsvirkjunarinnar, sem enn er glímt við í Nýfundnalandi og Labrador, í leit að sameiginlegum þáttum sem skýrt geta alvarleika þessara áfalla.

Slíkir þættir sáust í undanfara áfallanna hjá þessum samfélögum, eins og í þeim pólitíska kúltur sem hunsaði viðvaranir og stóð þannig í vegi viðbragða vegna hættuástands. Einnig voru brestir í upplýsingamiðlun áberandi.

Þá er athyglisvert, að eftir því sem á leið vóg reiði almennings vegna áfallanna þyngra og gerðar voru auknar kröfur til áfallastjórnenda. Á það sérstaklega við um þróun mála á Íslandi.

Meðhöfundar Ásthildar eru Mark C.J. Stoddart og Cole Atlin.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta