Fer í rannsóknaleyfi hjá virtum háskóla í Kína
Dr. Francesco Macheda, dósent við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst, hefur þegið boð hins virta alþjóðlega háskóla, Beijing Foreign Studies University (BFSU), um dósentsstöðu við The International Business School, eða IBS-deild háskólans.
BFSU er einn hæst metni háskóli í Kína samkvæmt „Project 211“ og „Project 985 Innovative Platforms for Key Disciplines“ mælikvörðunum sem gefnir eru út af menntamálaráðuneyti Kína. „Dósentstaðan er til eins árs, frá og með september 2022, “ segir Dr. Macheda. „Ég er afar ánægður með að hafa fengið þetta tækifæri hjá félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst. Rannsóknaleyfið mitt í Kína mun styrkja enn frekar þær alþjóðlegu tengingar sem unnið hefur verið skipulega að hér á Bifröst á undanförnum árum, ekki hvað síst fyrir framhaldsmenntunina á háskólastigi.“
„Megináhersla verður lögð á að leita eftir samstarfi og skiptast á hugmyndum við kínverska og erlenda fræðimenn við BFSU, þetta ár sem ég hef í Peking,“ segir Dr. Macheda, spurður að væntingum hans til rannsóknaleyfisins. Hann ætli sér að gera sitt besta til að dýpka enn frekar þekkingu sína á rannsóknum tengdum efnahagslegri þróun, vísindalegri nýsköpun og viðskiptasamböndum á milli Kína, Evrópu og Norður-Ameríku. Hann játar fúslega að eftirvæntingin sé mikil. „Ef til vill er ég fullfljótur á mér, en ég get ekki beðið eftir því að komast aftur hingað á skrifstofuna mína á Bifröst, til að vinna úr þeim efnivið sem Kína-dvölin mun vonandi skila af sér.“
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta