Feðraveldið og loftslagsbreytingar
Hafa loftslagssbreytingar eitthvað með feðraveldið að gera? Þetta er meðal þess sem Dr. Auður H Ingólfsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Bifröst, mun ræða um á fyrirlestri í Háskóla Íslands, föstudaginn 10. febrúar nk. Fyrirlesturinn fer fram í Odda, stofu 101, kl. 12:00-13:00
Í erindinu mun Auður skýra frá því hvernig hún beitti feminískum greiningatækjum við að skoða mótun og framfylgd loftslagsstefnu á Íslandi í nýlegri doktorrannsókn sinni. Þar skoðar hún hvaða hindranir koma helst í veg fyrir að tekist sé á við loftslagsvandann og beinir sjónum m.a. að pólitískri orðræðu og þeim gildum sem ráða för við stjórnun náttúruauðlinda. Sérstaklega er horft til með hvaða hætti gildi sem flokka mætti sem karllæg eða kvenlæg hafa áhrif á ákvarðanatöku og hvernig við skynjum tengsl manns og náttúru.
Auður útskrifaðist með sameiginlega doktorsgráðu frá Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og félagsvísindadeild Háskólans í Lapplandi. Verkefnið ber heitið: „Climate and Security in the Arctic. A Feminist Analysis of Values and Norms Shaping Climate Policy in Iceland.“ Leiðbeinendur verkefnisins voru Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og Lassi Heininen prófessor í stjórnmálum norðurslóða við Háskólann í Lapplandi.
Doktorsvörn Auðar fór fram við Háskólann í Lapplandi þann 16. desember sl. Andmælendur voru Dr. Annica Kronsell, prófessor í stjórnmálafræði við Lundarháskóla og Dr. Teemu Palosaari, sérfræðingur við Friðarrannsóknarsetrið, Háskólanum í Tampere.
Auður hefur verið lektor við Háskólann á Bifröst frá árinu 2010. Hún er með BA og MA gráðu í alþjóðafræðum frá háskólum í Bandaríkjunum. Áður en hún hóf störf við Háskólann á Bifröst starfaði hún m.a. sem blaðamaður, verkefnisstjóri við HÍ, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, friðargæsluliði á Sri lanka á vegum íslensku friðargæslunnar og sem jafnréttisráðgjafi fyrir UNIFEM á Balkansskaga.
Fyrirlesturinn er öllum opinn.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta