24. október 2022

Falin nýsköpun skapandi greina

Falin nýsköpun: Hlutverk skapandi greina í mótun hagkerfa og samfélaga nefnist hádegisfyrirlestur sem hinn nafntogaði fræðimaður Stuart Cunningham flytur fimmtuaginn 27. október nk.

Um hádegisfyrirlestur er að ræða, sem verður fluttur í Grósku í boði Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst og Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands í aðdraganda Þjóðarspegils.

Stuart Cunningham er best þekktur fyrir rannsóknir sínar á og kenningar um menningu og skapandi greinar, en hann er staddur hér á landinu sem ráðgjafi undirbúningshóp vegna stofnunar Rannsóknaseturs skapandi greina.

Fyrirlestur Cunningham fjallar um þá huldu nýsköpun sem býr í skapandi greinum. Í fyrirlestrinum mun hann leggja út frá hugtakinu „tveir menningarheimar” sem varð til fyrir yfir 60 árum hjá vísindamanninum og rithöfundinum C.P. Snow. Snow vildi þannig lýsa muninum sem er á heimssýn og aðferðum vísindamanna annars vegar og skapandi greina hins vegar.

Þessi mismunur hafi leitt til þess að nýsköpunarkerfi og nýsköpunarstefna hafa um áratuga skeið snúist um vísindi, verkfræði, tækni og læknisfræði og þær atvinnugreinar sem byggja á þeim. Hugvísindi, listir og félagsvísindi hafi í besta falli verið í aukahlutverki og framlag þeirra hafi því ekki sést í rannsóknaráætlunum, stefnumótun og áætlanagerð né verið viðurkennt hjá almenningi.

Skipulagsbreytingar í þróuðum hagkerfum og samfélögum hafi á hinn bóginn leitt smám saman til þess að þjónustuiðnaður og skapandi greinar hafa fengið aukið vægi sem drifkraftur í nýsköpun. Í erindi sínu tekur Cunningham dæmi um þetta.

Stuart Cunningham er staddur á Íslandi í tengslum við undirbúning á stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina þar sem hann hefur sinnt ráðgjafahlutverki, ásamt teymi sínu.

Dr. Stuart Cunningham er prófessor við emeritus Queenslands University of Technology í Ástralíu og leiðandi fræðimaður í heiminum á sviði menningar og skapandi greina. Cunningham hefur skrifað eða verið meðhöfundur 15 bóka, 25 skýrslna og yfir 200 ritrýndra greina og bókarkafla auk þess að hafa skrifað fjölda almennra greina. Hann hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga og æðstu orðu ríkisins Ástralíu fyrir fræðistörf sín.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta