Fagnað með sigurvegurum dagsins 17. febrúar 2024

Fagnað með sigurvegurum dagsins

Alls hlutu 88 útskriftarefni prófskírteini í dag á háskólahátíð Háskólans á Bifröst. Brautskráningin fór fram í Hjálmakletti í Borgarnesi. Þar af brautskráðust 42 með meistaragráðu.

Í ávarpi sínu hrósaði Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, útskriftarnemum fyrir frábæran árangur. Þau væru sigurvegarar dagsins og það væri henni heiður að fá að gleðjast með þeim.

Mörg hver væru ekki aðeins að ljúka námi heldur hefði þau einnig tekist á við það verkefni samhliða öðrum skyldum s.s. gagnvart fjölskyldu, vinnustað eða íþróttaiðkun erlendis. Þau hefðu nú gengið í gegnum eitt af stórum hliðum lífsins. Nýr kafli væri að hefjast í lífi þeirra og sagðist hún vona að Háskólinn á Bifröst hefði nestað þau vel til að leysa úr verkefnum framtíðarinnar

Þá stiklaði rektor á sögu Háskólans á Bifröst og hlutverki sem brautryðjanda í menntun hér á landi. Nýtt örnám eins og stafræn fatahönnun eða nýtt grunnnám í öryggisfræðum og almannavörnum væri til marks um það að Háskólinn á Bifröst stæði sig enn í því stykki.

Varðandi framtíðina, undirstrikaði rektor mikilvægi þess að samkeppnishæfni íslenskra háskóla aukist. Það markmið væri helsti drifkraftur viðræðna Háskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri, ásamt því að stuðla að auknu jafnfrétti til náms; að allir eigi þess kost að leggja stund á háskólanám óháð búsetu eða öðrum hamlandi þáttum.

Það væri svo einnig markmið háskólans, með þeim viðræðum sem standi fyrir dyrum við ráðuneyti háskólamálum um óskert fjárframlög gegn því að skólagjöld verði felld niður, að stuðla að auknu jafnræði á milli háskóla hvað námsval snerti hjá nemendum.

Rektor undirstrikaði þó að óháð því hvað framtíðin bæri í skauti sér, myndi Bifrastarglampinn ekki dvína í augum Bifrestinga. Háskólinn á Bifröst væri ekki staður eða byggingar heldur stæði hann fyrir menntun og ný og aukin tækifæri fólks í lífinu.

Að lokum brýndi rektor fyrir útskriftarnemunum nokkur heilræði. Hvatti hún þá til að láta muna um sig í lífinu, hræðast ekki mistök heldur læra af þeim og þora að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd.

Sjá brautskráningarlista, febrúar 2024

Sjá Bifrastarlistann

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta