Fagmenntun í þjálfun starfsmanna í ferðaþjónustu
Hópur starfsmanna íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja lauk í vor námi sem starfsþjálfar á vinnustað. Námið kallast TTRAIN, er stendur fyrir Tourism training, og er styrkt af Erasmus+ áætluninni, undir stjórn Rannsóknaseturs verslunarinnar og símenntunar Háskólans á Bifröst.
Einnig taka Samtök ferðaþjónustunnar þátt í verkefninu ásamt starfsmenntunarstöðvum á Ítalíu, Austurríki og í Finnlandi. Þessir aðilar hafa í sameiningu þróað námsskrá sem kennt er eftir í hverju þátttökulandi í tilraunaskyni. Eftir tilraunakennslu verður námsskráin endurbætt og námið boðið fleiri fyrirtækjum en þáttakendur að þessu sinni voru 12 og hafa þeir allir viðamikla reynslu af starfi við ferðaþjónustu hjá helstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins.
„Við lærðum hvert hlutverk starfsþjálfa er, hvernig hægt er að nýta starfsþjálfun og taka tillit til mismunandi þarfa einstaklinga, hvernig fólk lærir á mismunandi hátt. Einnig lærðum við að nýta fjölbreytt tæki og tól sem hægt er að nota við þjálfun og/eða kennslu,” segir Aðalheiður Hannesdóttir, verkefnastjóri gæðamála hjá Icelandair Hotels.
Námið felur í sér að viðkomandi starfsmenn fá fagmenntun í þjálfun starfsmanna í ferðaþjónustu sem þeir munu síðan nýta til að byggja upp og auka gæði starfsþjálfunar á sínum vinnustað. Beitt er námsaðferðum sem krefjast skapandi hugsunar, frumkvæðis þátttakenda, sjálfstrausts, greinandi hugsunar og mikillar færni í samskiptum. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast á heimasíðu þess www.trainingfortourism.eu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta