Erla Rún Guðmundsdóttir leiðir RSG
Erla Rún Guðmundsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG). Setrið var sett á stofn í vor en meginmarkmið þess er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina hér á landi.
Erla Rún er með meistarapróf í stjórnun og fjármálum menningar og skapandi greina frá Bocconi háskólanum í Mílanó og Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Hún hefur undanfarin fjögur ár starfað sem sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands og hefur haft þar veg og vanda af þróun menningarvísa og annarrar menningartölfræði.
Starf Erlu Rúnar felst í að móta rannsóknastefnu setursins með stjórn þess, sinna miðlun og samskiptum, kortleggja styrkumhverfi fyrir rannsóknir á sviði skapandi greina, og koma á laggirnar ráðgjafahóp RSG.
„Það eru spennandi verkefni framundan. Með vaxandi meðvitund um mikilvægi og hlutverk skapandi greina eykst þörfin fyrir rannsóknir á þessu sviði. Ég hlakka til samvinnu við fjölbreyttan hóp rannsakenda og fulltrúa skapandi greina,“ segir Erla Rún.
Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst og formaður stjórnar RSG, fagnar ráðningunni. Hún sé rétta manneskjan á réttum stað. „Erla Rún kemur eins og kölluð í þetta starf og mun leiða með okkur þróun á bæði akademískum og sérhæfðum þjónusturannsóknum. Hún hefur stýrt uppbyggingu á menningarvísum á Hagstofu Íslands og mun nú leiða það uppbyggingarstarf sem felst í að auka rannsóknavirkni á sviði menningar og skapandi greina á Íslandi. Starf hennar á Hagstofu Íslands undanfarin ár er ein af forsendum fyrir rannsóknum, samanburði og skilgreiningum á þessum vaxandi og kvika atvinnuvegi.”
Stofnaðilar setursins eru Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands. Háskólinn á Bifröst heldur utan um starfsemi setursins sem er fjármagnað með framlagi frá menningar- og viðskiptaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneyti. Rannsóknarstefna setursins verður byggð á skýrslunni Sköpunarkrafturinn - orkugjafi 21. aldar sem út kom í maí sl.
Frekari upplýsingar veitir Anna Hildur Hildibrandsdóttir í síma 866 7555 eða annah@bifrost.is.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta