![Ekki komist hjá siðferðislega þættinum í skattaumræðu](/media/1/malstofa-um-skattasidferdi.jpg?w=920&scale=both&autorotate=true)
Ekki komist hjá siðferðislega þættinum í skattaumræðu
Málþing um skattasiðferði fyrirtækja fór fram á vegum Nomos, félags laganema við Háskólann á Bifröst sl. laugardag. Mikil vakning hefur orðið í samfélaginu á undanförnum vikum um skattasniðgöngu í kjölfar þeirra upplýsinga sem birtust í Panama-skjölunum. Á málþinginu tók m.a. til máls Soffía Eydís Björgvinsdóttir, stundakennari í skattarétti við lögfræðisvið Háskólans á Bifröst og jafnframt einn meðeiganda hjá KPMG,
Aukinn drifkraftur í umræðunni um skattasniðgöngu
Í erindi Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur, um skattasiðferði fyrirtækja, benti hún á að umræðan væri að þróast frá því að líta eingöngu til þess hvað er löglegt og yfir í það hvað telst siðlegt. Það þyki einfaldlega ekki lengur boðlegt af hálfu fyrirtækja að líta framhjá siðferðislega þættinum.
Á meðal þess sem fram kom í erindi Soffíu Eydísar á laugardag var að Evrópusambandið hefur horft á ýmsa samninga fjölþjóðlegra fyrirtækja við ríki um skattgreiðslur frá sjónarhóli samkeppnisréttarins. Skattasamkeppni ríkja væri ekkert nýmæli en í því sambandi yrði að hafa í huga hvort samningar ríkja um skatta stórfyrirtækja gæti í einhverjum tilvikum talist vera ólögmæt ríkisaðstoð í skilningi samkeppnisréttar.
Þá sagði Soffía Eydís aukinn drifkraft í umræðunni um skattasniðgöngu (e. tax dodging ) fyrirtækja stafi meðal annars af nýjum efnahagslegum veruleika eftir hrun og fjármálakreppunni sem fylgdi í kjölfarið og því að almenningur væri meðvitaðri um að framlag fyrirtækja hafi þýðingu fyrir samfélagið. Þá væri aukin áhersla á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og að hún tæki einnig til skattalegra þátta í rekstri þeirra. Drifkrafturinn væri einnig sú staðreynd að fjölmiðlar hafi aukinn áhuga á skattgreiðslum fyrirtækja og að fyrirtæki séu meðvituð um að neikvæðar fréttir hafi áhrif á ímynd þeirra.
Einnig fluttu erindi, Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri og Þorbjörn Broddason prófessor í félagsfræði.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta