Ég er góð sko! 9. febrúar 2021

Ég er góð sko!

Um síðustu helgi var haldin fyrsta staðlotan í háskólagátt á ensku við Háskólann á Bifröst. Í ljósi aðstæðna var mætingin vitanlega frjáls og var um helmingur nemanna á staðnum en hinn helmingurinn tók þátt gegnum fjarfundabúnað.

Hópurinn er fjölbreyttur og eiga allar heimsálfur nema Eyjaálfa fulltrúa í nemahópnum. Íslenska er kennd á þremur getustigum en í íslenskuhópunum eru einnig nokkrir nemendur sem einungis stunda nám í íslensku sem öðru máli gegnum símenntun skólans. Allir nemendurnir eru fólk af erlendum uppruna sem er búsett á Íslandi og langar að bæta íslenskukunnáttu sína og margir nemendanna hyggja á nám á háskólastigi.

Alyson Hartwig er frá Bandaríkjunum. Hún hefur átt heima á Íslandi í þrjú ár og langar mjög mikið til að ná góðum tökum á íslensku. Hún bjargar sér þegar nokkuð vel og segir hlæjandi að hægt sé að komast nokkuð langt á Íslandi með því að kunna að segja: „Ég er góð sko.“ Það er augljóst að Alyson er dugleg að fylgjast með því hvernig innfæddir tala því hún á sér draum um að læra að tala á „innsoginu“.

Daniel Mukwaaba kemur frá Uganda og hefur átt heima á Íslandi í hálft annað ár. Hann er ekki kominn eins langt í íslenskunáminu og Alyson en er samt búin að átta sig á því að orðið „jæja“ hefur margar merkingar sem þarf að lesa úr tónfalli orðsins. Í framtíðinni langar Daniel að komast í háskólanám í viðskiptafræði.

Í kaffitímanum ræða nemendurnir ýmislegt sem á þeim brennur og það er greinilegt að þau fylgjast að talsvert með samfélagsumræðunni. Þeim finnst til dæmis fáránlegt að streymisveitan Disney+ skuli ekki hafa sýnt myndir með íslensku tali og textum sem þó eru fyrir hendi og fagna því að tekist hafi að breyta þessu. Alyson fagnar því líka að Bíó Paradís hafi verið opnað að nýju en henni finnst bíóið gegna mikilvægu hlutverki í fjölmenningarsamfélagi, bæði vegna þess að þar eru sýndar myndir úr öllum heimshornum og einnig vegna þess að sömu myndir eru jafnvel sýndar bæði með íslenskum og enskum undirtextum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta