Diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun
Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík bjóða sameiginlega upp á nýtt nám í verslunarstjórnun í samstarfi við Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntasjóð verslunarinnar, VR og Samtök verslunar og þjónustu. Markmiðið með náminu er að opna dyr fyrir þá sem mennta sig í verslun og þjónustu og vilja halda áfram í háskólanám. Sífellt eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda í atvinnulífinu hvað menntun varðar og eru stjórnendur almennt nú flestir með háskólanám að baki. Nýtt fagháskólanám í verslunarstjórnun er ætlað að gefa starfandi verslunarstjórum færi á að styrkja sig í starfi með því að bæta við sig hæfni og öðlast menntun við hæfi.
Námið, sem 60 ECTS einingar, tekur mið af ofangreindum starfsþáttum. Það er kennt með vinnu og mun taka tvö ár í dreifnámi. Námið byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni.
Styrkur námsins liggur bæði í virku samstarfi við atvinnulífið og í samstarfi háskólanna tveggja um þróun þess og kennslu. Námið er metið til eininga til áframhaldandi náms í viðskiptafræði til BS gráðu, bæði við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík. Nemendur sem útskrifast með diplómagráðu í verslunarstjórnun munu því geta haldið áfram námi til BS gráðu í viðskiptafræði kjósi þeir slíkt. Háskólarnir meta gagnkvæmt háskólaeiningar (ECTS) innan verkefnisins, óháð því hvor skólinn kennir einstök námsskeið og mat á náminu inn í BS gráðu í viðskiptafræðum.
Almenn inngönguskilyrði er stúdentspróf eða sambærilegt nám, en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda.
Þeir sem sækja um á grundvelli starfsreynslu án stúdentsprófs, og skortir grunnþekkingu í stærðfræði, íslensku og ensku, munu eiga þess kost að efla sig í þeim greinum, verði þeir teknir inn í námið. Reynsla af verslunarstjórnun eða víðtæk starfsreynsla á sviði verslunar skilyrði.
Umsóknafrestur er til 10. desember til að hefja nám í þeim fögum sem þegar eru kennd í BS náminu en til 20. janúar fyrir þá sem vilja eingöngu byrja á sérsniðnu skyldufagi. Nánari upplýsingar um námið má finna hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta