Bylting í áfallastjórnun
Óhætt er að segja að við lifum á áfallatímum, en frá aldamótum hefur hvert áfallið rekið annað með fjármálahruni, eldgosum, atvinnuleysi, jarðskjálftum, aurskriðum og MeToo byltingum svo að það helsta sé nefnt.
Almannavarnir rekja sögu sína aftur til kjarnorkuváar 6. áratugarins. Vendipunktur varð í áfallastjórnun hér á landi í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 og í framhaldi af því fer fram víðtækt endurmat á þeim áföllum sem sjónir almannavarna beinast að og þeim stofnunum sem að slíku starfi koma.
Dr Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við félagsvísindasdeild Háskólans á Bifröst og fagstjóri í Áfallastjórnun, var á meðal viðmælanda í fróðlegu innslagi í Landanum á RÚV um áfallastjórnun, sem sýnt var sl. sunnudagskvöld. Nálgast má þáttinn í heild sinni á hlekk hér að neðan.
Í innslaginu kemur m.a. fram að ný námslína í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst boði byltingu í þessum efnum, en skortur sé á sérmenntuðu fagfólki á þessu sviði hér á landi. Þúsundir stjórnenda geti fyrirvaralaust fengið krísustjórnun í fangið og mikilvægt sé að þeir hafi aðgang að vönduðu og heildstæðu námi á þessu sviði. Það eigi jafnt við um fyrirtækjastjórnendur og stjórnendur hjá því opinbera. Skólastjórnendur séu nýlegsta dæmið um stjórnendahóp sem tók með skömmum fyrirvara eldskírn í tiltekinni krísustjórnun vegna COVID-faraldursins sem nú gengur yfir.
Auk Ásthildar er einnig rætt við Víði Reynisson, yfirlögregluþjón og Þorstein Þorkelsson, björgunarsveitarmann. Segist Víðir t.d. aldrei hafa upplifað aðra eins áfallatíma og síðustu ár.
Námslínan í krísustjórnun er samstarfsverkefni félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Landsbjargar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta