Margrét í panelumræðum um stefnu og ábyrgð háskólanna á búsetufrelsi hér á landi.
3. nóvember 2023Búsetufrelsi?
Byggðaráðstefnan fór að þessu sinni fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Yfirskrift ráðstefnunnar var Búsetufrelsi?
Að vanda var valinkunnur maður í hverju rúmi. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, opnaði ráðstefnuna með ávarpi og í framhaldinu tóku frummælendur við með erindi sín, hvert öðru áhugaverðara fyrir áhugafólk um byggða- og sveitarstjórnarmál.
Ráðstefnunni var skipt upp í fjóra hluta og var fyrsti hlutinn helgaður byggðafestu og búferlaflutningum á íslandi - sem var jafnframt meginviðfangsefni ráðstefnunnar. Á meðal þeirra sem áttu orðið í þessum hluta var Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við HÍ og rannsóknaprófessor í byggðafræði við HA.
Í öðrum hlutanum, sem sneri að ávinningi eða áskorunum byggðafestu og búferlaflutninga tók meðal annarra Kjartan Már Kjartansson, sveitarstjóri Reykjanesbæjar, sem sagði frá lýðfræðilegum áskorunum Reykjanesbæjar og Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, en hún velti upp þeirri spurningu hvað felist í búsetufrelsi.
Glæsilegur panell með fulltrúum allra háskólanna ræddi síðan stefnu og ábyrgð háskólanna í þessum efnum. Var Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, fulltrúi HB í þeim umræðum.
Bjarki Þór Grönfeldt, lektor og sérfræðingur við Rannsóknasetur byggða- og sveitarstjórnarmála við Háskólann á Bifröst, rýndi svo í fjórða og síðasta hlutanum félagssálfræði jákvæðs byggðabrags og spurði jafnframt hvort sveitarfélög séu hluti af sjálfsmynd Íslendinga. Erindi sitt byggði Bjarki á rannsóknum sem Vífill Karlsson, prófessor og forstöðumaður setursins, hefur leitt á sviði byggða- og sveitarstjórnarmála.
Í þessum síðasta hluta flutti Anna Karlsdóttir, vísindamaður við HÍ í land- og ferðamálafræði, hugleiðingar um búseturfrelsi og endurheimt útnárans.
Um stjórntauma ráðstefnunnar hélt Guðmundur Gunnarsson, blaðamaður. Byggðaráðstefna fer fram árlega á vegum Byggðastofnunar.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta