BS verkefni varð að frumvarpi
„Það er mjög svo ánægjulegt að verkefnið skuli nýtast með þessum hætti,“ segir Selma Hrönn Maríudóttir, en nýlega var dreift á Alþingi frumvarpi til breytinga á lögum sem byggir á tilllögum úr BS ritgerð hennar í viðskiptalögfræði.
Forsaga málsins er sú Selma Hrönn ákvað að gera fyrningu kröfuréttinda og sjónarmið um beitingu kröfuvaktar að viðfangsefni BS ritgerðar sinnar, eftir að hafa hlustað á útvarpsviðtal við Ásthildi Lóu Þórsdóttur, formann Hagsmunasamtaka heimilanna um þann fjölda fólks sem virðist vera fastur á vanskilaskrá frá hruninu.
Ástæðuna virðist mega rekja til þess, að kröfuhöfum tekst að halda kröfum á lífi, þrátt fyrir fyrningaákvæði laga. Þá virðast neytendur ekki þekkja rétt sinn nógu vel, með þeim afleiðingum að kröfuhöfum hefur tekist að innheimta jafnvel fyrndar kröfur.
Helstu niðurstöður lokaverkefnisins eru að gildandi fyrningarlög nr. 150/2007 geri kröfuhöfum kleift að rjúfa fyrningu út í hið óendanlega, þrátt fyrir það meginmarkmið laganna að koma í veg fyrir að slíkt gerist.
Selma Hrönn leggur því þær lagabreytingar til í BS verkefninu, að annars vegar verði bannað að innheimta fyrndar kröfur á hendur neytendum og hins vegar að heimilt verði að rjúfa fyrningu aðeins einu sinni.
Þessar tillögur mynda nú kjarnann í frumvarpi til breytinga á lögum sem dreift var nýlega á Alþingi, en Guðmundur Ásgeirsson lögfræðingur og varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna, kom tillögunum á framfæri við Ásthildi Lóu Þórsdóttur sem er samhliða þingmennsku formaður samtakanna.
„Það er hvetjandi að sjá tillögurnar lifna við í höndunum á fagfólki og almennilegt af lögfræðingi samtakanna að leyfa mér að fylgjast með. Lokaverkefnið verður raunhæfara fyrir vikið og öll vinnan að baki þess fær aukinn tilgang,“ segir Selma Hrönn, BS í viðskiptalögfræði.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta