7. febrúar 2015

Brautskráning frá Háskólanum á Bifröst

Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði rúmlega 70 nemendur úr öllum deildum skólans í dag, laugardaginn 7. febrúar, við hátíðlega athöfn.

Í ræðu sinni vék Vilhjálmur hversu mikilvægt traust er í daglegu lífi og í öllu okkar starfi.  Sama gildi um traust í samfélaginu.  Hann benti á hversu ómögulegt samfélag verður ef ósamkomulag og vantraust er um alla hluti.  Sérhvert samfélag þurfi á stöðugleika að halda þar sem málamiðlanir hafa verið gerðar og samkomulag ríkir um flest mál þótt líka sé nauðsynlegt að tekist sé á um afmarkaða þætti til að hreyfa samfélagið áfram.

Skólinn í sókn og nýjar námsbrautir kynntar
Hann vék einnig að þeirri sókn sem Háskólinn á Bifröst er í, en sóknin hófst með breyttu viðkiptalíkani fyrir Háskólagáttina haustið 2013 og hefur verið haldið áfram síðan.  Síðastliðið haust voru 618 nemendur við nám í skólanum og það fjölgaði um 20% í skólanum milli ára.  Nú á vorönn hófu 45 nýir nemendur nám við skólann og að stefnt væri að því markmiði að yfir 700 nemendur verði í námi við Háskólann á Bifröst næsta haust. Sem dæmi um þá sókn sem Háskólinn á Bifröst er í munu þrjár nýjar námslínur líta dagsins ljós frá og með hausti 2015 á félagsvísindasviði, BA í stjórnmálahagfræði, BA í miðlun og almannatengslum og BA í byltingafræði.

 

Forysta í kennsluháttum
Vilhjálmur greindi frá kennsluháttum skólans og sagði m.a.: „Við vitum að við erum í framlínunni í kennsluháttum og nýtingu tækni við kennslu.  Við þurfum hins vegar alltaf að vera að breyta og bæta og þróa kennsluaðferðir til þess að gera sífellt betur og halda okkur í fremstu röð.  Innihald námsins þarf líka að vera örugglega af þeim gæðaflokki að okkur takist að mennta fólk til forystustarfa í atvinnulífinu og samfélaginu eins og við höfum metnað til.“

 

Sameining háskóla verður að vera sókn fyrir alla
Að endingu vék hann að sameiningaráformum menntamálaráðherra á rekstri Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. „Nú hefur Háskólanum á Bifröst verið sýnt það traust af hálfu menntamálaráðherra að hann er að setja í gang vinnu með okkur ásamt Háskólanum á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands.   Við lítum ekki svo á að verið sé að kasta björgunarhring til Háskólans á Bifröst.  Okkar áætlanir til framtíðar ganga út á öflugan og vaxandi skóla og við sjáum ekkert óyfirstíganlegt standa í veginum fyrir okkur.   Stofnanir Háskólans á Bifröst hafa samþykkt að taka þátt í þessari vinnu sem ráðherrann er að setja af stað.  Markmiðið er að finna betri sóknarfæri fyrir alla skólana.  Háskólinn á Bifröst tekur þátt á grunni styrkleika og við erum full sjálfstrausts.  Við reiknum líka með því að sameinaður skóli munu nýta vörumerki allra skólanna áfram eins og best kemur út. Við munum ekki taka þátt í neinu nauðungarhjónabandi og viljum ekki fara saman með einhverjum sem telur að hann sé að taka niður fyrir sig.  Við sjáum hins vegar ýmsa sóknarmöguleika í stöðunni þegar til framtíðar er horft og það er okkar skylda að láta reyna á hvort samstaða næst um málið“.

Vilhjálmur óskaði útskriftarnemum til hamingju með áfangann hvatti nemendur til að leggja rækt við Bifrastargildin og að þekkja muninn á metnaði og græðgi. Einnig þakkaði hann öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til samfélagsins í Norðurárdalnum, nemendum og starfsfólki skólans, hollvinum, fulltrúaráði og stjórn.


Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun hlutu, Anna Ólöf Kristjánsdóttir á viðskiptasviði, Sigtryggur Arnþórsson á lögfræðisviði og Kristján Snæbjörnsson á félagsvísindasviði. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun, Gestur Snorrason á viðskiptasviði, Gunnar Óskarsson á lögfræðisviði og Guðni Tómasson á félagsvísindasviði. Að auki fengu eftirfarandi fjórir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, þau Svanberg Halldórsson á viðskiptasviði, Björn Líndal Traustason og Lilja Björg Ágústsdóttir á lögfræðisviði og Tjörvi Schiöth á félagsvísindasviði. Þá voru veitt verðlaun fyrir sumarönn 2014 og hlutu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld, Elva Pétursdóttir á viðskiptasviði, Björn Líndal Traustason á lögfræðisviði og Tjörvi Schiöth á félagsvísindasviði.

Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru, Eva Hlín Alfreðsdóttir af viðskiptasviði, Sigtryggur Arnþórsson af lögfræðisviði, Helga Margrét Friðriksdóttir af félagsvísindasviði og Davíð Freyr Þórunnarson nemandi úr MA í menningarstjórnun flutti útskriftarræðu fyrir hönd meistaranema.

Í ávörpum fulltrúa allra útskriftarhópa kom fram mikil ánægja með að hafa valið Háskólann á Bifröst. Verkefnaálag væri mikið en það væri gott veganesti fyrir framtíðina. Talað var um mikla samkennd á meðal nemenda og að Háskólinn á Bifröst væri góður skóli til að öðlast framúrskarandi menntun.

 

Upptökur:


Öll útskriftin.


Vilhjálmur Egilsson rektor
flytur hátíðarræðu á útskrift
 
Eva Hlín Alfreðsdóttir
flytur ræðu fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms við viðskiptasvið
Sigtryggur Arnþórsson flytur ræðu fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms við lögfræðisvið
Helga Margrét Friðriksdóttir flytur ræðu fyrir hönd útskriftarnema grunnnáms við félagsvísindasvið
Davíð Freyr Þórunnarson flytur ræðu fyrir hönd útskriftanema meistaranáms

 

 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta