17. febrúar 2023

Blað brotið í skapandi greinum

Samúel Lúkas Rademaker er fyrstur nemanda við Háskólann á Bifröst til að útskrifast með BA gráðu úr skapandi greinum.

Námsbrautin var sett á laggirnar árið 2020, upphaflega sem eins árs diplómanám en fljótlega var ákveðið að bjóða einnig upp á BA nám í ljósi fjölda fyrirspurna.

„Það var góður grunnur að taka BA námið í skapandi greinum til að fá innsýn og þjálfun í að vinna á háskólastigi og kynnast innviðum skapandi greina betur,” sagði Samúel Lúkas þegar hann var inntur eftir því hvernig honum liði með námið. 

Samhliða því að klára BA ritgerðina sína fékk Samúel Lúkas inngöngu á kvikmyndabraut í Listaháskóla Íslands, sem fór af stað sl. haust. 

BA ritgerð Samúels var skrifuð undir leiðsögn Dr. Ránar Tryggvadóttur og hét: Allt sem hugurinn girnist – Hefur aðgangur Íslendinga að streymisveitum dregið úr ólöglegri notkun á skapandi efni. Þar skoðar hann hvort aukinn aðgangur Íslendinga að streymisveitum hafi dregið úr ólöglegri notkun á höfundarvörðu efni. 

„Niðurstöður sýndu að ólögleg stafræn notkun á tónlist, hljóð- og rafbókum á Íslandi minnkaði mikið í hlutfalli við aukið framboð löglegra streymisveitna en það reyndist vafasamara með kvikmyndir og sjónvarpsþætti, mögulega vegna þess að notendur þurfa að vera áskrifendur að mörgum mismunandi veitum til að nálgast þær kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem þeir vilja sjá. En almennt má segja að viðhorf Íslendinga til rafrænnar notkunar höfundarvarins efnis sé að breytast í jákvæðari átt hvað varðar löglega notkun og vilja til að listamenn njóti sanngjarnra tekna af notkun verka sinna og flutnings þeirra."

Við óskum Samúel Lúkas til hamingju með árangurinn.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta