Bifrestingur í úrslitum Gulleggsins 14. október 2020

Bifrestingur í úrslitum Gulleggsins

Ingimar Aron Baldursson, nemandi við Háskólann á Bifröst leiðir hóp sem er meðal tíu teyma sem keppa til úrslita í Gullegginu. Úrslitin verða kynnt föstudaginn 16. október. Gulleggið er frumkvöðlakeppni Icelandic Startups og er nú haldin í fjórtánda sinn og telst það mikil viðurkenning að vera meðal þeirra tíu sem keppa til úrslita.

Ingimar Aron er um þessar mundir að skrifa lokaverkefni sitt til BS-prófs við Hákólann á Bifröst. Verkefni hans í Gullegginu nefnist Eno. Það byggir á hugmynd Ingimars og útfært í samstarfi við erlenda forritara sem hafa reynslu af því að vinna með veföpp.

Um er að ræða hugbúnað sem hjálpar litlum og meðalstórum fyrirtækjum að útbúa skýrslur eins og stórfyrirtæki með því að sjálfvirknivæða og einfalda greiningarvinnu og skýrslugerð og bæta með því yfirsýn og gagnadrifna ákvarðanatöku. ,,Um 27 prósent fyrirækja á Íslandi eru með starfsmann á sviði upplýsingatækni í sínum röðum en markhópur þessa verkefnis eru hin 73 prósentin,” segir Ingimar. Hann segir mikilvægt fyrir þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki að að koma gögnum sem verða til í fyrirtækjarekstrinum í þann farveg að þau nýtist. ,,Þá veit maður nákvæmlega hvert peningarnir eru að fara.”

Keppnin hefur staðið undanfarnar vikur og hefur vel á annað hundrað teyma fengið þar þjálfun og leiðsögn við að móta viðskiptahugmyndir sínar á vegum Iceland Startups. Öllum þátttakendum stóð til boða að skila inn viðskiptaáætlun í rýni hjá dómnefnd og voru tíu stigahæstu hugmyndirnar valdar til að keppa til úrslita. Sigurvegari keppninnar hlýtur að launum 1.000.000 kr.
 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta