Aukning nýnema við Háskólann á Bifröst og umsóknir enn skoðaðar
Umsóknir í háskólanám við Háskólann á Bifröst eru um 25% fleiri en á síðasta ári. Fjölgunin er fyrst og fremst í umsóknum um grunnnám en þær eru rúmlega 50% fleiri en í fyrra. Umsóknum um meistaranám hefur fjölgað um 5% frá fyrra ári en það nám hefur verið í miklum vexti undanfarin ár. Heldur færri umsóknir eru í Háskólagáttina sem er undirbúningsnám fyrir háskólanám. Í heild eru umsóknir í skólann um 16% fleiri en í fyrra. Reikna má með því að nýnemar í Háskólanum á Bifröst verði um 25% fleiri en á síðasta ári eða um 270.
„Við erum bjartsýn í Háskólanum á Bifröst. Skólinn er í fararbroddi í fjarnámi og nýjungar í námsframboði og kennsluháttum hafa verið að skila sér vel. Háskólinn á Bifröst er 100 ára á þessu ári og hlutverk skólans hefur alla tíð verið að mennta fólk fyrir leiðandi hlutverk í atvinnulífinu og samfélaginu. Skólinn mun halda áfram að þróast eins og þarf til að gegna hinu mikilvægu hlutverki sínu í íslensku samfélagi,” segir Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.
Vinsælasta námslínan í Háskólanum á Bifröst er forysta og stjórnun sem er kennd í meistaranámi. Í grunnnáminu er viðskiptafræði með mismunandi áherslum vinsælust en einnig hefur verið góð aðsókn í viðskiptalögfræði og í diplómanám í opinberri stjórnsýslu.
Þá eru jafnan yfir 30 erlendir skiptinemar á Bifröst á hverri önn og þar til viðbótar hefur erlendum nemendum sem greiða skólagjöld verið að fjölga. Nú stendur t.a.m. yfir sumarskóli í Háskólanum á Bifröst þar sem 25 erlendir nemendur taka námskeið í sjálfbærri forystu.
Umsóknir eru enn að berast í skólann og allar umsóknir eru skoðaðar þrátt fyrir að formlegum umsóknafresti sé lokið. Fjarnám er orðið ráðandi við Háskólann á Bifröst og rúmlega 80% nemenda velja það fyrirkomulag.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta