Aukin þjónusta vegna Covid-19 19. mars 2020

Aukin þjónusta vegna Covid-19

Nú þegar við erum að aðlagast þessum tímabundna breytta lífstakti koma fram alls konar pælingar og verkefni sem við þurfum að leysa. Við erum heppin að því leytinu til að vera í fjarkennslu og gengur það skipulag á hefðbundinn hátt,  en það eitt og sér er ekki nóg undir þessum kringumstæðum, því svo margt annað er í gangi.

Þónokkuð hefur verið um það að nemendur hafi haft samband við okkur vegna hinna ýmsu mála sem rekja má til þess ástand sem nú varir. Það á bæði við um málefni er snúa að skólanum eða persónulegra aðstæðna fólks. Ljóst er að vegna undangenginna verkfalla í Reykjavík og veirunnar beint í kjölfarið eru aðstæður margra nemenda okkar erfiðar og koma til með að vera það áfram.

Við sem störfum við Háskólann á Bifröst ætlum sem hópur að standa saman að því að aðstoða ykkur nemendur í gegnum þessa önn. Það þýðir að við þurfum að hugsa í lausnum, veita sveigjanleika og vera tilbúin að hlusta og liðsinna ykkur. Ef þið eruð að upplifa að þið eigið erfitt með ykkar nám vegna aðstæðna eða eruð á þeim stað að vera að gefast upp, þá hvetjum við ykkur eindregið til að hafa samband við okkur, hafa má beint samband við Dagnýju kennslustjóra eða Halldóru Lóu námsráðgjafa.

Við svörum öllum tölvupóstum, svo fljótt sem auðið er. Markmiðið er að svara póstum innan dagsins, því hafa einhver okkar ekki alveg náð vegna mikilla anna undanfarinna daga. Hafið þið ekki fengið svar að tveimur dögum liðnum, má endilega minna á sig. 

Kennarar hafa verið beðnir um að sýna sveigjanleika gagnvart skilafrestum á verkefnum og eru margir þeirra að hugsa um sitt námsmat og verkefni með öðrum gleraugum núna.

Próftaflan er í smíðum og verðum birt öðru hvorum megin við helgi. Eins og staðan er núna stefnum við á að halda okkar striki en á sama tíma vinnum við að plani B, sem við þurfum vonandi ekki að styðjast við.

Gott væri að þeir nemendur sem veikjast af Covid-19 eða annarri veirusýkingu sem gerir það að verkum að fólk getur verið lengi að ná heilsu, myndu láta okkur vita. Þá getum við verið í samstarfi við kennara og prófstjóra með góðum fyrirvara um námsmat og lokapróf.

Bókasafn skólans er lokað, en hægt er að ná sambandi við bókasafnsfræðing í gegnum netfangið bokasafn@bifrost.is, hægt er að fá bækur sendar eða aðstoð við leit að bókum, t.d. rafrænum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta