3. janúar 2024

Aukin tækifæri til samkeppnishæfs náms utan höfuðborgarsvæðisins

Skýrsla um fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst liggur nú fyrir. Skýrslan var unnin í framhaldi af viljayfirlýsingu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og háskólanna tveggja sem undirrituð var í september sl. Gangi sameining háskólanna eftir, verður á grunni þeirra reistur nýr háskóli með höfuðstöðvar á Akureyri, starfsstöð í Borgarnesi og starfsstöð í Reykjavík.

Ráðist var í greiningarvinnu í kjölfar verkefnis háskólaráðherra um Samstarf háskóla sem kynnt var á síðasta ári og hefur þegar skilað meira samstarfi á milli háskóla landsins ásamt samningaviðræðum um mögulegar sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst annars vegar og hins vegar samtals milli Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands.

Í skýrslunni er sýn fyrir skipulag nýs háskóla á grunni skólanna tveggja kynnt. Talið er að með því að sameina krafta, styrkleika og sérfræðiþekkingu háskólanna yrði til nýr og samkeppnishæfari skóli jafn hérlendis sem og á alþjóðavettvangi sem myndi styrkja til muna háskólamenntun á Íslandi. Þá myndi sameinaður skóli jafnframt styrkja samkeppnisstöðu Íslands í síbreytilegum heimi.

Kröftugur, sameinaður háskóli með höfuðstöðvar á Akureyri og miðstöðvar eða samstarf um allt land myndi styrkja landsbyggðina í heild og fjölga tækifærum til náms utan höfuðborgarsvæðisins, ekki síst í gegnum aukna möguleika á fjölbreyttu fjarnámi.

Sameinaður háskóli yrði svipaður að stærð og Háskólinn í Reykjavík m.t.t. nemendafjölda, eða um 3500 nemendur. Nýr háskóli gæti orðið til þess að styrkja frekar samstarf sem þessir skólar hafa við háskólasetur og miðstöðvar í öllum landsfjórðungum. Með sameiningu væri blásið til sóknar á landsbyggðinni með auknum gæðum, aukinni þjónustu og auknum rannsóknum.

„Ánægjulegt er hversu jákvæðum niðurstöðum viðræður Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst skiluðu um fýsileika sameiningar. Ljóst er að á grunni þeirra getur risið annar stærsti háskóli landsins, sem myndar til muna öflugri heild en háskólarnir standa nú samanlagt fyrir, hvor í sínu lagi. Gangi það eftir mun nýi háskólinn efla og byggja enn frekar upp innviði háskólamenntunar hér á landi, sem alþjóðlega samkeppnisfær rannsóknaháskóli. Þá mun hann treysta jafnrétti til háskólamenntunar hér á landi með sambærilegum hætti og gert er í nágrannalöndum okkar, óháð þáttum á borð við aldur, búsetu, atvinnuþátttöku eða fötlun. Það er því að okkar mati verulega mikilvægt að stjórnvöld greiði, sem best þau geta, fyrir sameiningu háskólanna,” segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.

Sjá nánari umfjöllun á vef Stjórnarráðsins

Sjá skýrsluna um mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta