Aukin framlög til Háskólans á Bifröst 7. desember 2015

Aukin framlög til Háskólans á Bifröst

Meirihluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 50 milljóna króna framlagi til Háskólans á Bifröst í tillögugerð sinni fyrir 2. umræðu fjárlagafrumvarps.  Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 325 milljóna króna framlagi sem mun hækka í 375 milljónir króna samkvæmt tillögu meirihluta nefndarinnar. 

Þessi hækkun á framlagi ríkisins til Háskólans á Bifröst skiptir mjög miklu máli fyrir skólann.  Í fjárlagafrumvarpinu var ekki tekið tillit til fjölgunar nemenda við skólann en nú hefur meirihluti fjárlaganefndar brugðist við athugasemdum frá skólanum og ákveðið að koma til móts við hann. 

Stjórn Háskólans á Bifröst hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir komandi ár þar sem miðað er við að skólinn komist úr taprekstri í smávægilegan hagnað.  Tillaga meirihluta fjárlaganefndar styður við þau áform.  Helstu lánadrottnar Háskólans á Bifröst, Arion banki og Byggðastofnun endurfjármögnuðu skólann á árinu og stóðu vel við bakið á honum til þess að komast yfir þá fjárhagserfiðleika sem tímabundin fækkun nemenda hafði skapað. 

Um 630 nemendur hófu nám við Háskólann á Bifröst sl. haust og horfur eru á að góður hópur nýrra nemenda innritist í skólann á vorönn 2016 en jafnan koma langflestir nemendur inn í skólann á haustönn. Því má reikna með að nemendum fjölgi áfram við Háskólann á Bifröst og að skólinn haldi áfram að styrkjast á árinu 2016.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta