5. september 2022

Áskorunin snýst um nýju Íslendingana

Dr. Njörður Sigurjónsson, prófessor, telur ráðningu þjóðminjavarðar fara gegn þeirri þróun sem einkennt hefur menningar- og safnamál undanfarinn áratug og miðar að aukinni fagvæðingu.

Ráðning nýs þjóðminjavarðar sætti í síðustu viku harðri gagnrýni, m.a. af hálfu ýmissa fagfélaga innan safna- og menningargeirans, Jóns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands og síðast en ekki síst Friðriks Jónssonar, formanns Bandalags háskólamanna, BHM. Benti Friðrik m.a. á að slíkar ráðningar án auglýsingar geti grafið undan trúverðugleika stjórnmálamanna. 

Njörður ræddi þetta og önnur athyglisverð mál ásamt Silju Aðalsteinsdóttur, þýðanda og ritstjóra, í Endastöðinni, vikulegum þætti á Rás 1 um menningarmál nýliðinnar viku. 

Varðandi ráðningu nýs þjóðminjavarðar, var m.a. farið yfir þau rök Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ráðherra, að með ráðningunni hefði hún viljað freista þess að gera söfnin aðgengilegri en nú er fyrir fólk, ekki ósvipað því sem bandarískur almenningur á að venjast og ráðherra hefði sjálf jákvæða reynslu af eftir starfsár hennar í Bandaríkjunum. Eftir á að hyggja, hefði þó að sögn ráðherra, líklega verið betra að auglýsa embættið laust til umsóknar, sem væri enda meginreglan í íslenskri stjórnsýslu. 

Njörður tók undir með ráðherra, að betra hefði verið að auglýsa, fyrst og fremst vegna þess að embætti þjóðminjavarðar væri eitt það mikilvægasta í safna- og menningarmálum þjóðarinnar sem stefnumarkandi á sínu málefnasviði, auk þeirrar rannsóknaskyldu sem hvílir á Þjóðminjasafninu.

Njörður benti jafnframt á, að stóra áskorunin í málaflokknum snúist ekki um aðsóknartölur heldur um nýja Íslendingana, hvernig við getum gert menningu og menningararfinn aðgengilegan og hvað verði um íslenskuna eftir því sem engilsaxneska verði ríkari hluti af daglegum samskiptum.

Einnig rifjaði Njörður upp í þessu sambandi, að rannsóknir hér á landi bendi eindregið til þess að Íslendingar eigi menningarlegt aðsóknarmet í samanburði við flest lönd sem við berum okkur saman við, hvort heldur litið sé til Bandaríkjanna, Evrópu eða hinna Norðurlandanna. Það eigi jafnt við um aðsóknartölur í söfn,  leikhús og kvikmyndahús. Stór rannsókn hafi m.a. verið gerð á árinu 2009 sem staðfesti þetta, fjármögnuð af ráðuneytinu og e.t.v. væri löngu tímabært að endurtaka. 

Að mati Njarðar væri því full mikil einföldun að segja málið snúast um tilflutning hæfs embættismanns innan ráðuneytis. Þá væru það mikil vonbrigði að sjá þetta afturhvarf til gamalla vinnubragða í ráðningum þess opinbera á kostnað faglegra gilda. 

Umræddur þáttur var á dagskrá Rásar 1 föstudaginn, þann 2. september sl. Auk þess sem ráðning nýs Þjóðminjavarðar kom til tals, beindu þáttastjórnendurnir Júlía Margrét Einarsdóttir og Kristján Guðjónsson athygli hlustenda að Mærþöll, nýrri óperu eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem frumflutt var í síðustu viku í Gamla bíói. Áður hafa verið fluttar eftir Þórunni m.a. óperur um Kolrössu krókríðandi og Sæmund fróða. 

Einnig var fjallað um frumsýningu nýrrar íslenskrar kvikmyndar, Svar við bréfi Helgu, eftir leikstjórann Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, en kvikmyndin byggir á samnefndri bók eftir Bergsvein Birgisson, og krufið var komandi leikhúsár hjá stóru leikhúsunum tveimur, Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta