Árið 2021 gert upp 30. desember 2021

Árið 2021 gert upp

Ársins 2021 verður ekki hvað síst minnst fyrir þá þverpólitísku samstöðu sem myndaðist um Keynesismann, að mati Eiríks Bergmann, prófessors við Háskólann í Bifröst. Eiríkur tók þátt í áramótauppgjöri Spegilsins, fréttaskýringarþætti Rásar 1 á RÚV í kvöld, ásamt fleiri góðum álitsgjöfum.

Með vísan í Keynesismann, hagfræðikenningar sem kenndar eru við höfund þeirra John Maynard Keynes og voru ríkjandi um og upp úr síðara stríði, á Eiríkur við COVID-aðgerðir stjórnvalda til stuðnings atvinnulífi.

Íslensk stjórnvöld hafa í þessum efnum fetað sömu eða svipaða slóð og helstu samanburðarlönd, en, eins og Eiríkur bendir á, þá er sú þverpólitíska samstaða sem myndaðist hér á landi ekki sjálfgefin. Beinar stuðningsaðgerðir sem miða að því að halda uppi atvinnustigi hafa sætt harðri gagnrýni víða erlendis.

Auk Eiríks tóku þátt í áramótauppgjörinu Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ. Enda þótt margt hafi borið á góma þá setti COVID19 eðlilega sterkan svip á umræðurnar.

Auk áhrifa heimsfaraldursins á atvinnulíf, efnahag og þjóðarsál voru sóttvarnaraðgerðir ræddar og sú vaxandi þörf sem er á því að þær aðgerðir verði lagaðar betur en nú er að þörfum þjóðfélagsins. Þá veltu álitsgjafar einnig upp hvað læra megi af eða sjá þakkarvert við faraldurinn.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta