Alþjóðlegt verkefni um Týndu aldamótakynslóðina 11. janúar 2022

Alþjóðlegt verkefni um Týndu aldamótakynslóðina

Háskólinn á Bifröst hlaut nýverið veglegan styrk úr Uppbyggingarsjóði EES vegna fjölþjóðlegs rannsóknarverkefnis sem teygir sig til 14 landa alls.

Verkefnið nefnist Aldamótakynslóðin eða The lost Millennials og lýtur að vinnumarkaðstengdum aðgerðum og stuðningi sem hvatt getur ungt fólk á aldrinum 25-29 ára til fullrar virkni.

Í brennidepli rannsóknarinnar er sá hluti þessa aldurshóps sem er óvirkur; er ekki námi, stendur utan vinnumarkaðar og tekur ekki þátt í starfstengdum verkefnum eða námskeiðum (NEET). Heiti verkefnisins er svo dregið af því, að þessi aldurshópur fellur undir aldamótakynslóðina svokölluðu. 

Rannsóknarverkefnið stendur yfir fram í ársbyrjun 2024 og eru þátttakendur af hálfu Háskólans á Bifröst Dr. Arney Einarsdóttir, dósent í viðskiptadeild, Helga Ólafs, rannsóknastjóri og Dr. Sigrún Lilja Einarsdóttir, dósent í félagsvísindadeild.

Meginmarkmiðið er, að sögn þeirra þriggja, að kortleggja stöðu þessa aldurshóps og meta árangur aðgerða, með það fyrir augum að auka þekkingu í málaflokknum og um leið forsendur til markvissra aðgerða í þágu þessa hóps og þátttöku hans á vinnumarkaði.

Margt bendi jafnframt til þess, að heimsfaraldurinn hafi haft alvarleg áhrif á möguleika ungs fólks á vinnumarkaði sem og getu þess til fullrar virkni í samfélaginu. Tímabilið sem er til skoðunar í verkefninu er allt frá fjármálakrísunni 2008 til og með Covid krísu.

Segja má, að atvinnuleysi og skortur á virkni á vinnumarkaði á meðal ungs fólks sé samevrópsk áskorun, en hátt í 10 milljónir ungs fólks í Evrópu eru ekki í vinnu, námi eða þjálfun.

Þær benda í þessu samhengi á, að mikilvægt sé að bera saman stöðu þessa hóps á vinnumarkaði í þátttökulöndunum sem og að meta árangur þeirra aðgerða sem beinst hafa sérstaklega að þessum hópi.

Þá verður enn fremur horft til þeirra sem koma að öllu jöfnu, ekki fram í atvinnuleysistölum, s.s. fólks með skerta starfsgetu eða í starfsendurhæfingu sökum heilsubrests.

Niðurstöður verða þannig nýttar til að byggja upp þekkingu á vinnumarkaðsaðgerðum sem skilað hafa árangri í þátttökulöndunum.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta