Alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi
Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild, er á meðal þátttakenda í ráðstefnu þjóðaröryggisráðs um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi.
Í kynningu ráðstefnunnar segir að sjónum verði beint að því, hvernig nýta megi alþjóðasamstarf til að tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar á sama tíma og stjórnvöld glími við nýjar og breyttar áherslur í samfélagslegum og alþjóðlegum áskorunum.
Opnunarávarp ráðstefnunnar flytur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs.
Að því búnu flytur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir opnunarerindi undir yfirskriftinni Alþjóðasamvinna og áskoranir samtímans. Jafnframt flytur Christoph Heusgen, forstöðumaður Munich Security Conference, ávarp og á meðal þátttakenda í pallborðsumræðum undir þessum lið ráðstefnunnar eru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Það kemur svo í hlut Bjarna Más að taka þátt í pallborðsumræðum um alþjóðasamstarf og öryggishagsmuni Íslands í víðtækum skilningi. Með honum þar eru m.a. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, en inngangserindi og umræðustjórn er í höndum Höllu Hrundar Logadóttur, orkumálastjóra.
Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Alþjóðamálastofnun H.Í. í Hörpu og fer hún fram þann 22. mars nk. kl. 13:00 til 16:00.
Ráðstefna er öllum opin, en þátttakendur eru þó beðnir um að skrá sig. Jafnframt verður gefinn kostur á þátttöku í gegnum fjarfundabúnað.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta