Alls 124 nemendur útskrifaðir á háskólahátíð
Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði alls 124 nemendur úr öllum deildum skólans, námi í verslunarstjórnun og Háskólagátt, í dag, laugardaginn 10. júní, við hátíðlega athöfn.
Í útskriftarræðu sinni til útskriftarnemenda vék Vilhjálmur að því að skólinn hafi treyst stöðu sína sem gæðaskóli og áfram verði sótt fram á þeim vettvangi. Þá hafi aðsókn í meistaranám verið sérstaklega góð og hópur meistaranema sem komi inn í haust verði væntanlega sá stærsti sem sést hefur.
Þá ræddi Vilhjálmur um að stjórn skólans ákveðið að boða til mikils stefnumótunarfundar á Bifröst næsta haust og vonast sé eftir breiðri þátttöku úr hópi aðstandenda skólans, starfsfólki og nemendum. Vonast sé til þess að fundurinn muni styrkja enn frekar innviði skólans og samstöðu.
Bifrestingar láta að sér kveða
„Það er gaman að fylgjast með Bifrestingum á vinnumarkaðnum. Við sjáum víða fréttir af þeim og lesum um hvað þeir eru að gera og hvernig námið á Bifröst hefur gagnast. Við bíðum spennt eftir því að sjá hvaða afrek útskriftarnemar okkar í dag eiga eftir að vinna. Þau munu örugglega láta að sér kveða,“ sagði Vilhjálmur einnig í ræðu sinni.
Verðlaun og útskriftarræður
Útskriftarverðlaun hlutu í grunnnámi, Þórdís Sif Arnarsdóttir, viðskiptadeild, Ásdís Hrönn Pedersen Oddsdóttir, lagadeild og Ingunn Bylgja Einarsdóttir, félagsvísindadeild . Útskriftarverðlaun hlutu í meistaranámi Helga Dröfn Þórarinsdóttir, viðskiptadeild, Lilja Björg Ágústsdóttir, lagadeild og Ása Fanney Gestsdóttir, félagsvísindadeild. Að auki fengu eftirfarandi þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri, Vera Dögg Höskuldsdóttir, viðskiptadeild, Sonja Hafdís Pálsdóttir, lagadeild og Pétur Steinn Pétursson, félagsvísindadeild. Þá var verðlaunanemandi í Háskólagátt Fanney Valsdóttir.
Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Björgvin Ingi Pétursson, fyrir hönd grunnnema lagadeildar Jónas Halldór Sigurðsson og fyrir hönd grunnnema í félagsvísindadeild Hallur Guðmundsson. Ræðumaður fyrir hönd meistaranema var Anna Marín Þórarinsdóttir, viðskiptadeild. Ræðumaður fyrir hönd Háskólgáttarnema var Sigríður Hvönn Karlsdóttir.
Karlakórinn Lóuþrælar sem sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Elínborgar Sigurgeirsdóttur og stjórn Pálínu Fanneyjar Skúladóttur.
Ræðu rektors má finna í heild sinni hér.
Horfa má á athöfnina í heild sinni hér.
Hvers vegna að velja Bifröst?
- Í fararbroddi í fjarnámi
- Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
- Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
- Sterk tengsl við atvinnulífið
- Persónuleg þjónusta