Akademísk húsverk og  menntabil  í háskólamenntun til umræðu á Bifröst 18. maí 2018

Akademísk húsverk og menntabil í háskólamenntun til umræðu á Bifröst

Framtíð háskólastarfs á landsbyggðinni var yfirskrift tólftu árlegu ráðstefnunnar um íslenska þjóðfélagið sem að þessu sinni var haldin í Háskólanum á Bifröst nýlega. Þar komu saman margir helstu fræðimenn íslenskra háskóla á sviði hug- og félagsvísinda og kynntu fjölmargar rannsóknir um íslenskt þjóðfélag.

Tæplega 60 fyrirlestrar voru fluttir á ráðstefnunni í fjölmörgum málstofum.  Auk þróunar háskólastarfs á landsbyggðinni sem var sérstakega til umfjöllunar, fengu umræður um stöðu kvenna innan íslensks háskólasamfélags sérstaka áherslu.  Þar komu m.a. til umfjöllunar akademísk húsverk þar sem vísað er til ólíkrar virkni kynjanna í ýmsum verkefnum sem lúta að störfum innan akademíunnar. Einnig var fjallað um menntabil í háskólamenntun og áhrifa staðsetningar háskóla á landinu, sem og  stefna í menningarmálum. Hlutverk stjórnenda í atvinnulífinu, einkenni þeirra og aðferðir voru ræddar. Rannsóknir í ferðaþjónustu og vinnuafl í greininni voru kynntar ásamt fjölmörgum öðrum áhugaverðum rannsóknum.

Ráðstefnan er ekki eingöngu vettvangur fyrir fræðilegar umræður um hin ólíkustu mál endur skapar hún mjög gott tækifæri fyrir samveru og samskipti milli fræðimanna á sviði hug- og félagsvísinda. Hefð er fyrir því að ráðstefnan er haldin á landsbyggðinni á vormánuðum og fyrir liggur að ráðstefnan á næsta ári verður í Háskólanum á Hólum.

Myndir frá ráðstefnunni má nálgast hér.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta