Áhugaverðar rannsóknir í lögfræði 22. mars 2023

Áhugaverðar rannsóknir í lögfræði

Loftslagsbreytingar og sjálfbærni í rannsóknum er viðfangsefni málþings sem lagadeild Háskólans á Bifröst heldur 24. mars nk.

Frummælendur eru dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeildina og Björg Valgeirsdóttir, LL.M., aðjúnkt við lagadeildina og jafnframt doktorsnemi við lagadeild Háskólans í Lundi.

Grunnlína hafsvæða og landhelgi þjóðríkja

Grunnlína hafsvæða og landhelgi þjóðkirkja nefnist erindi Bjarna Más. Löngu gleymdur dómur Lögregluréttar Reykjavíkur, sem var staðfestur í Hæstarétti Íslands árið 1922, er einn af örfáum dómum í heiminum sem kemur inn á, svo vitað sé, eðli hinnar svokölluðu grunnlínu sem hafsvæði eru mæld frá. Auk þess er hér um að ræða fyrsta íslenska Hæstaréttardóminn þar sem reynir á lagaleg álitaefni af alþjóðlegum toga. 

Í erindi sínu fjallar Bjarni Már um þennan lítt þekkta en áhugaverða dóm og hvernig hann tengist umræðunni á alþjóðavettvangi um áhrif hækkunar yfirborðs sjávar á lögsögu ríkja. Þar að auki mun hann spyrja hvers vegna í ósköpunum dómurinn sé hvorki þekktur meðal íslenskra lögfræðinga né alþjóðlegra.

Segja má að Bjarni Már skoði hér samspil eldgosa, lögsögu landa og hækkun yfirborðs sjávar út frá einstöku lögfræðilegu sjónarhorni.

Kröfur alþjóðlegs umhverfisréttar og alþjóðlegra mannréttindareglna og þýðing þeirra við mat á sjálfbærni samkvæmt flokkunarkerfi Evrópusambandsins

Erindi Bjargar Valgeirsdóttur snýr svo að kröfum alþjóðlegs umhverfisréttar og alþjóðlegra mannréttindareglna og þýðingu þeirra við mat á sjálfbærni samkvæmt flokkunarkerfi Evrópusambandsins. Flokkunarkerfið er hluti af Græna evrópska sáttmálanum (e. European Green Deal) frá 2020, en honum er ætlað að mynda grundvöll fyrir sjálfbærar fjárfestingar og þróun sjálfbærar atvinnustarfsemi innan Evrópusambandsins, með það fyrir augum að Evrópa verði fyrsta kolefnislausa heimsálfan fyrir 2050.

Í erindi sínu mun Björg rekja hvernig þetta regluverk byggir á óljósum og misvísandi hugtökum, s.d. að atvinnustarfsemi skuli „ekki valda verulegum skaða“. Gæta verði af þeim sökum að þeim meginreglum alþjóðaréttaraðar sem þegar hafa verið mótaðar og bregður m.a. fyrir í Parísarsáttmálanum, rammasamningi Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar, leiðbeinandi meginreglum Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi og í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið sé brýnt ætli Evrópusambandið sér að halda sjálfsskipuðu leiðtogahlutverki sínu á þessu sviði og koma jafnframt í veg fyrir grænþvott (e. green washing) samfara óljósri hugtakanotkun innan nýja regluverksins.

Erindi Bjargar byggir á doktorsverkefninu sem hún vinnur nú að við lagadeild Háskólans í Lundi og er fjármagnað af rannsóknarsjóði Marianne og Marcus Wallenberg:  https://mmw.wallenberg.org/en/implementing-european-green-deal-eu-taxonomy-regulation. Leiðbeinendur eru Dr. Daria Davitti og Dr. Britta Sjöstedt.

Málþingið fer fram í Aðalbóli á Bifröst, föstudaginn 24. mars nk. kl. 11:00 og verður sent út í beinu streymi. Fundarstjóri er Elín H. Jónsdóttir, deildarfoseti lagadeildar.

Nánari upplýsingar um málþingið og beint streymi

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta