Áhugaverð meistararitgerð um íslenska stjórnendur 23. nóvember 2017

Áhugaverð meistararitgerð um íslenska stjórnendur

Bergþóra Hlín Arnórsdóttir lauk nýverið MS gráðu við Háskólann á Bifröst. Í lokaritgerð sinni rannsakaði Bergþóra verkefni og viðhorf opinberra stjórnenda og þá með hvaða hætti íslenskir stjórnendur falla að gildum norrænnar forystu. Ritgerð Bergþóru hefur vakið töluverða athygli vegna fræðilegs framlags hennar og í kjölfarið skrifaði hún fræðigreinina „Viðhorf íslenskra og danskra stjórnenda til starfsumhverfis í ljósi norrænna gilda“ásamt þeim Einari Svanssyni, sem var jafnframt leiðbeinandi Bergþóru og Kára Joensen. Greinin fjallar um niðurstöður nýrrar rannsóknar sem byggir á meistararitgerð hennar.

Bergþóra hafði lengi haft áhuga á því að læra um mismunandi leiðir við stjórnun en var ekki tilbúin að binda sig við ákveðna starfsstétt eða form stjórnar. Það sem kveikti sérstakan áhuga hennar á náminu við Háskólann á Bifröst var hversu mikið val var í náminu. Mörg námskeið höfðuðu sérstaklega til hennar t.d. námskeið um Þjónustustjórnun, Þjónandi forystu og Stefnumótun. Þá vóg það þungt hjá Bergþóru í upphafi að námið var blanda af fjarnámi og staðlotum en sú tilhögun hentar vel með vinnu. Námið hefur nýst henni mjög vel í starfi en þar þarf hún að hafa samskipti við mjög marga og vera tilbúin að hlusta á ólík sjónarmið.

“Þegar á heildina er litið þá var ég mjög ánægð með námsferlið og get óhikað mælt með náminu fyrir þá sem hafa áhuga á fjölbreyttum aðferðum við stjórnun og forystu.”

Hugmyndin að ritgerðarefninu kom til þegar Bergþóra sat námskeiðið Breytingastjórnun við Háskólann á Bifröst en þar heyrði hún fyrst um norræna forystu og norræna forystulíkanið. Vöktu þau fræði þegar áhuga hennar og í kjölfarið ákvað hún að skoða nánar hvernig íslenskir stjórnendur falla að norrænum gildum.

Helstu niðurstöður rannsóknar Bergþóru voru að starfsumhverfi stjórnenda í löndunum tveimur er líkt og eru stjórnendur í báðum löndum almennt ánægðir með verkefni starfsins. Þó komu fram nokkur atriði sem sýndu að opinber stjórnun í löndunum tveimur eru ólík og er þeim atriðum gerð frekari skil í greininni „Viðhorf íslenskra og danskra stjórnenda til starfsumhverfis í ljósi norrænna gilda“ sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, í júní 2017.

Bergþóra sagði það afar fróðlegt og skemmtilegt að ganga skrefinu lengra og vinna fræðigrein um viðfangefni meistararitgerðarinnar ásamt Einari og Kára, sem báðir eru lektorar við Háskólann á Bifröst. Þessi greinarskrif hefðu ekki orðið að veruleika nema með þeirra vinnuframlagi til verkefnisins. Samstarfið gekk mjög vel þrátt fyrir að vinnan hafi að mestu farið fram í gegn um rafræna miðla og samskipti oft á tíðum verið krefjandi, þar sem reyndi mikið á skipulag, samræmi í framsetningu efnis og samstarfshæfni.

Einar Svansson, leiðbeinandi Bergþóru segir ritgerðina kærkomna viðbót við leiðtogafræðin á Íslandi. Að það sé fengur í því að fá nýja íslenska rannsókn sem varpar ljósi á íslensk einkenni leiðtoga í samanburði við norræna starfsbræður þeirra.

„Þetta er í raun óplægður akur sem tími var kominn til þess að plægja og því er framlag Bergþóru mjög mikilvægt skref“ segir Einar.

Þá telur Einar það ljóst að niðurstöðurnar staðfesta að íslenskir stjórnendur bera flest einkenni norræns stjórnunarstíls. Þetta er mjög góð byrjun á þessu sviði leiðtogarannsókna og lofar góðu um framhaldið. Næsta skref fyrir Háskólann á Bifröst er að halda áfram að fylla inn í eyðurnar og kanna fleiri tengda þætti sem eru hluti af norræna leiðtogalíkaninu.

„Við erum rétt að byrja og margt sem hægt er að kanna betur, til dæmis sambandið við pólitískt bakland og hagsmunaðila í daglegri vinnu leiðtogans. Þá er einnig áhugavert að kanna nánar þátt íslenskra kvenna sem leiðtoga og hvort þeirra stjórnunarstíll sé frábrugðinn karlleiðtogum eða norrænum kvenleiðtogum“ segir Einar að lokum, aðspurður hvert væri áhugavert að stefna í rannsóknarvinnu í kjölfarið af þessum niðurstöðum.

Nánari upplýsingar um meistaranám í forystu og stjórnun má finna hér. Opnað hefur verið fyrir skráningar í meistaranám við Háskólann á Bifröst og er umsóknarfrestur til 10. desember.

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta