Nancy Duxbury og Erna Kaaber flytja erindi á málþingi Háskólans á Bifröst og Hafnar.haus um áhrif skapandi greina í landsbyggðum.

Nancy Duxbury og Erna Kaaber flytja erindi á málþingi Háskólans á Bifröst og Hafnar.haus um áhrif skapandi greina í landsbyggðum.

9. maí 2023

Áhrif skapandi greina á landsbyggðum

Háskólinn á Bifröst stendur í samstarfi við Hafnar.haus fyrir afar áhugaverðu málþingi um landsbyggðaráhrif skapandi greina, en áhrif þeirra á nýsköpun og samfélagsþróun landsbyggðanna hafa þar til nú verið lítt rannsökuð. Á málþinginu verða fluttir tveir fyrirlestrar í Hafnar.haus í Reykjavík, hvor í sínu lagi. Fyrri fyrirlesturinn verður fluttur 22. maí og sá síðari 26. maí nk., kl. 10:00 – 12:00 báða daga.

Fyrri fyrirlesturinn flytur Erna Kaaber og nefnist hann Rannsókn á staðbundinni nýsköpun menningar og skapandi greina á svæðum utan þéttbýlis: Tilraunasvæðið á Vesturlandi í samhengi alþjóðlegrar þróunar. Erna starfar sem sérfræðingur við Háskólann á Bifröst og aðalrannsakandi IN SITU, rannsóknaverkefnis sem13 háskólar og rannsóknastofnanir í Evrópu eiga aðild að. Mun Erna fjalla um þátttöku Háskólans á Bifröst og Vesturlands í þessu áhugaverða samstarfsverkefni og fara yfir helstu þætti þess í samhengi þeirra rannsóknaráherslna sem hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu misserum. 

Síðari fyrirlesturinn flytur dr. Nancy Duxbury, Coimbra háskólanum í Portúgal, en hún leiðir jafnframt IN SITU rannsóknina. Fyrirlestur sinn nefnir Nancy Rannsókn á staðbundinni nýsköpun menningar og skapandi greina á svæðum utan þéttbýlis: Stuðningur og uppbygging hæfni og stefnuramma. Í erindinu gerir Nancy grein fyrir uppbyggingu IN SITU rannsóknarinnar og uppruna hennar í fyrri rannsóknum á menningu og skapandi greinum í Evrópu og samandreginni þekkingu geirans sjálfs úr þeim rannsóknum.

Nancy á að baki áratugaferil við rannsóknir á skapandi greinum og menningartengdri ferðaþjónustu. Nancy hefur sérhæft sig í menningarstefnuþróun og er hún jafnframt hluti af evrópsku sérfræðinganeti í menningarmálum (e. European Expert Network on Culture).Þá stýrir hún samhæfingu IN SITU rannsóknarinnar og er í forsvari fyrir Rannsóknarsetur Háskólans í Coimbra í félagsvísindum, listum og hugvísindum, sem er sérhæfð rannsóknastofnun í þverfræðilegri og þverfaglegri nálgun á sínu sviði.

Tilgangur IN SITU rannsóknaverkefnisins er að auka skilning á formgerð, ferlum og stjórnun fyrirtækja í skapandi greinum í dreifbýli í Evrópu. Rannsóknin skoðar hvernig efla megi nýsköpun hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum í skapandi greinum og stuðla með því móti að aukinni samkeppnishæfni og sjálfbærni landsbyggðar.

Vesturland er eitt af sex tilraunasvæðum IN SITU verkefnisins og lýtur sá hluti verkefnisins stjórn rannsóknarteymis Háskólans á Bifröst. Önnur tilraunasvæði eru í Króatíu og er það undir stjórn rannsóknarteymis Kultura Nova Foundation, í Lettlandi undir stjórn rannsóknarteymis Lettnestu menningarakademíunnar, á Írlandi undir stjórn rannsóknarteymis Háskólans í Galway (UG), á Azoreyjum í Portúgal undir stjórn rannsóknarteymis Háskóla Azoreyja, og í Finnlandi og er þeim hluta stýrt af rannsóknarteymis Háskólans í Turku. 

Smelltu hér og skráðu þig á málstofuna

Smelltu hér og fáðu frekari upplýsingar um IN SITU rannsóknina 

Hvers vegna að velja Bifröst?

  1. Í fararbroddi í fjarnámi
  2. Allt námsefni aðgengilegt á netinu þegar þér hentar
  3. Skólinn kemur til þín og mætir þínum þörfum
  4. Sterk tengsl við atvinnulífið
  5. Persónuleg þjónusta